Ég fékk til mín breskan vin í heimsókn um daginn og þar sem um er að ræða fótboltaáhugamann, reyndar Arsenal-mann, fannst mér tilvalið að kveikja á leik í Pepsi-deildinni. Við höfðum heppnina með okkur þar sem viðureign tveggja skemmtilegra liða, FH og Breiðabliks, var á dagskrá, og minn maður var bara nokkuð hrifinn, eða þóttist vera það.
Hann setti hins vegar spurningarmerki við eitt. Veðurguðirnir voru ekki í stuði og buðu upp á talsverða bleytu í Kaplakrika þennan dag, svo að regndropar söfnuðust smám saman á linsuna á aðaltökuvélinni. „Af hverju skipta þeir ekki bara á aðrar vélar og þurrka af linsunni?“ spurði félagi minn, en leiddi svo talið fljótt aftur að því hver væri besti arftaki Arsenes Wengers. Reyndar er ég nú bara svo ánægður með þá byltingu sem orðið hefur í útsendingum frá íslenskum fótbolta, og ekki síður körfu- og handbolta (vert að minna á að handboltaveislu vetrarins gæti lokið á Stöð2Sport í dag, og hún hefur verið frábærlega úr garði gjörð), að mér gæti varla verið meira sama um nokkra regndropa. Viðmiðin sem sett eru með útsendingum frá ensku úrvalsdeildinni gera hins vegar samanburðinn erfiðan.
Sindri Sverrisson