[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Áformað er að opna um 30 veitingastaði í miðborginni á næstu 18 mánuðum. Margir verða á nýjum þéttingarreitum sem hafa verið lengi í undirbúningi. Þá er áformað að opna nokkra staði árið 2020.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Áformað er að opna um 30 veitingastaði í miðborginni á næstu 18 mánuðum. Margir verða á nýjum þéttingarreitum sem hafa verið lengi í undirbúningi. Þá er áformað að opna nokkra staði árið 2020.

Skal tekið fram að staðirnir verða af öllum stærðum og gerðum. Allt frá litlum stöðum í Granda mathöll yfir í stóra staði sem kostar jafnvel hundruð milljóna að standsetja.

Nokkrir staðanna verða við Austurhöfn og Hafnartorg. Þau rými eru í eigu fasteignafélagsins Regins.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir aðspurður að eðlilega hafi hægt á vexti ferðaþjónustunnar, vöxturinn geti ekki verið með veldisvexti til eilífðarnóns. Hins vegar megi ekki tala markaðinn niður þó að nú hægi á.

Áformin voru endurskoðuð

Helgi segir áform um fjölda veitingarýma á Hafnartorgi hafa verið endurskoðuð út frá stöðunni á veitingamarkaði í miðbænum.

„Nú er mikið talað um erfiða stöðu á þessum markaði. Við hjá Regin teljum jákvætt að ferðaþjónustan vaxi ekki áfram eins hratt og hún hefur gert. Það er gott að það hægi á greininni, innviðir okkar lands ráða ekki við svo mikla þenslu. Nú fáum við tækifæri til að bæta innviði, gæði þjónustu og styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja. Við megum ekki gleyma því að hingað kemur gríðarlegur fjöldi ferðamanna. Árlegur vöxtur upp á 5-10% vegur því þungt,“ segir Helgi.

Hann segir Regin leigja rými undir nokkur veitingahús. Reginn horfi til langs tíma og kjósi að hafa leiguna hóflega.

„Við vitum af nokkrum verkefnum þar sem búið er að keyra svo upp leiguna að staðirnir ráða ekki við það. Við hjá Regin teljum ekki rétt að starfa þannig,“ segir Helgi.

Hann bendir á að Marriott Edition hótelið við Hörpu muni laða að fágætisferðamenn. Hótelið og önnur starfsemi á Austurbakkasvæðinu verði segull fyrir Reykjavík.

10-12 þúsund á fermetra

Haft var eftir Hrefnu Sætran veitingamanni í Morgunblaðinu í gær að verið væri að loka veitingastöðum.

Sérfræðingur sem óskaði nafnleyndar sagði leiguverðið í mörgum veitingarýmum of hátt. Verðið hefði verið hækkað í 10-12 þúsund krónur á fermetra. Með hliðsjón af því og hækkandi launakostnaði ætti ekki að koma á óvart þótt rekstur þyngdist.

Sambærileg úttekt birtist í Morgunblaðinu í fyrrasumar. Síðan hafa nokkrir veitingastaðir verið opnaðir í miðborginni. Meðal þeirra eru Sumac, Lauf og Nostra á Laugavegi, Gott Reykjavík í Hafnarstræti, Lamb Street Food á Granda og Lof á Mýrargötu. Nýja samantektin er ekki tæmandi. Margt er í pípunum.