— Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir
Hvaðan kom hugmyndin að halda konunlegt boð á brúðkaupsdegi Harrys? Við erum þrjár sem köllum okkur „The Royal Sisters“; ég, Harpa Rut Hilmarsdóttir systir mín og Kristín Ástríður Ásgeirsdóttir og höldum við boðið saman.
Hvaðan kom hugmyndin að halda konunlegt boð á brúðkaupsdegi Harrys?
Við erum þrjár sem köllum okkur „The Royal Sisters“; ég, Harpa Rut Hilmarsdóttir systir mín og Kristín Ástríður Ásgeirsdóttir og höldum við boðið saman. Við höfum einlægan áhuga á konungbornu fólki og ákváðum að taka þetta mjög alvarlega þegar Kata og Vilhjálmur giftu sig. Þá héldum við konunglega veislu og horfðum á brúðkaupið í beinni. Við buðum nokkrum vinkonum og buðum bara þeim sem höfðu áhuga á kóngafólki. En auðvitað er þetta gert með húmorinn að vopni. Við erum búnar að bíða spenntar eftir að Harry gengi út. Enda „desperat“ og orðinn þetta gamall og ekki genginn út. Það kom því ekkert annað til greina en að halda upp á brúðkaup ársins.
Hvaðan kemur kóngafólksáhuginn?
Hann hófst í æsku en Elínborg amma mín keypti alltaf Hjemmet og Familie Journal en þar voru alltaf fréttir af dönsku konungsfjölskyldunni. Ég heillaðist af þessu. Ég saug í mig blátt blóð í barnæsku. Ég trúði ekki að það væru til alvöru prinsessur og alvöru prinsar. Mér fannst það rosalegt. Svo var hin amma mín Jensína mjög lík Elísabetu Bretadrottningu þannig að við systur erum ábyggilega skyldar henni.
Hvernig verður veislan?
Við ætlumst að sjálfsögðu til að konur mæti eins og þær væru að fara í brúðkaupið sjálft. Í boðskortinu var óskað eftir viðeigandi klæðnaði með tilheyrandi höttum. Ef konur eiga ekki hatta er hægt að föndra; nota spöng og festa í hana fjaðrir til dæmis.
Hvað verður boðið upp á?
Að sjálfsögðu verðum við með gúrkusamlokur, tekex með marmelaði, te og freyðivín. Það verður auðvitað skálað fyrir brúðhjónunum. Og svo verðum við með „lemon og lavender“ brúðkaupstertu svipaða og Meghan valdi fyrir brúðkaupið. Ég er að safna konunglegu stelli sem var sérstaklega hannað fyrir Elísabetu Bretadrottningu og það verður dregið fram. Öllu verður tjaldað til fyrir prinsinn og nýju prinsessuna.