Í vikunni skrifaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra undir viljayfirlýsingu milli Íslands og Alþjóðabankans um aukið samstarf á sviði sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda og málefna hafsins. Var þetta gert jafnhliða því sem ráðherrann fundaði með með Lauru Tuck sem er varaforseti Alþjóðabankans á sviði sjálfbærrar þróunar. Í yfirlýsingunni felst að Ísland styðji við verkefni bankans á þessu sviði, bæði með íslenskri sérfræðiþekkingu og með stuðningi við fiskimál og fiskimannasamfélög á þeim stöðum þar sem bankinn er með verkefni fyrir. Samskonar samstarf er nú þegar í gildi á sviði jarðhitamála, segir í tilkynningu.
„Þetta aukna samstarf við bankann er mikilvægur þáttur í að nýta íslenska sérþekkingu í þróunarverkefnum og koma henni á framfæri innan alþjóðastofnana, en á það var einmitt lögð áhersla í skýrslu stýrihóps um utanríkisþjónustu til framtíðar,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningu.