Kómedíuleikhúsið Elfar Logi Hannesson og Rúnar Guðbrandsson alvarlegir á æfingu í vikunni.
Kómedíuleikhúsið Elfar Logi Hannesson og Rúnar Guðbrandsson alvarlegir á æfingu í vikunni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Kómedíuleikhúsið á Ísafirði frumsýnir einleik um Einar Guðfinnsson útgerðarmann í Einarshúsi í Bolungarvík nk. miðvikudagskvöld, 23. maí.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Kómedíuleikhúsið á Ísafirði frumsýnir einleik um Einar Guðfinnsson útgerðarmann í Einarshúsi í Bolungarvík nk. miðvikudagskvöld, 23. maí. „Ég er að dunda við að læra textann minn,“ segir Elfar Logi Hannesson, stofnandi og eigandi leikhússins, en leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson.

Verkið kom til eins og margir skrýtnir og kómískir hlutir gerast, að sögn Elfars Loga. Eins og svo oft áður hafi hann verið að drekka kaffi með Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra Bolungarvíkurkaupstaðar, og bæjarstjórinn hafi spurt upp úr þurru hvort hann væri ekki til í að búa til einleik um þennan merkilega mann. „Jú, jú, svaraði ég og klukkutíma seinna var hann búinn að ganga frá öllu og við gátum lagt á djúpið. Þetta var skyndihugdetta sem hitti beint í mark. Í þessu leikhúsi erum við vön því að velta hlutunum ekki of mikið fyrir okkur heldur framkvæma strax.“

Lífróður þar sem allt er undir

Undirbúningur verksins hófst í ársbyrjun og hafa Elfar Logi og Rúnar að mestu verið í fjarsambandi þar sem Rúnar vinnur í Reykjavík en Elfar Logi fyrir vestan. „Nú er lokaspretturinn hafinn og þetta er bara eins og hver annar lífróður, það er allt undir,“ segir leikarinn.

Elfar Logi lærði í Kómedíuleiklistarskólanum í Danmörku. Róbert Snorrason var samtíða honum í skólanum og þegar þeir komu heim undruðust þeir að leikhússtjórar Þjóðleikhússins og Borgarleikhússins hringdu ekki í þá með boð um gull og græna skóga. „Við ákváðum þá að gera eitthvað í málinu og bjuggum til okkar eigin leikhóp, sem við nefndum Kómedíuleikhúsið,“ segir Elfar Logi um stofnun leikhússins 1997. „Róbert gafst upp á hinu íslenska harki og fór í harkið í Kaupmannahöfn, þar sem hann er enn, en ég hélt áfram að bardúsa í borginni. Leikhúsið náði samt ekki flugi fyrr en ég flutti vestur um aldamótin, en síðan 2001 höfum við verið nokkuð iðin við kolann. Þetta er verk númer 42.“

Nokkurn tíma tók að ákveða hvaða sögu ætti að segja af Einari. „Þegar við vorum orðnir sáttir við leiðina vorum við eins og alfræðiorðabók um Einar Guðfinnsson og handritsskrifin gengu mjög vel,“ segir hann og bætir við að ævisaga Einars eftir Ásgeir Jakobsson hafi verið helsta heimildin.

Elfar Logi segist renna blint í sjóinn með þetta leikverk eins og öll önnur, en bendir á að síðasta verkefnið, Gísli á Uppsölum, hafi verið sýnt hátt í 100 sinnum, þótt hann hafi alveg eins búist við að sýningarnar yrðu aðeins tvær. „Þetta er eins og laxveiði og framhaldið er í höndum áhorfenda. Ef þeim líkar uppsetningin er aldrei að vita hvað gerist. Við tökum slaginn og verðum að vona að þetta verði ekki bara gott partí heldur standi yfir í langan tíma.“