Guðmundur Hermannsson yfirlögregluþjónn með búnað þjófanna.
Guðmundur Hermannsson yfirlögregluþjónn með búnað þjófanna. — Morgunblaðið/Kristján
Fyrir tæpum 40 árum, snemma í júní árið 1978, handtók lögreglan í Reykjavík Þjóðverja að nafni Konrad Ciesielski og son hans, Lothar, eftir að hafa veitt feðgunum eftirför um landið í fimm daga.

Fyrir tæpum 40 árum, snemma í júní árið 1978, handtók lögreglan í Reykjavík Þjóðverja að nafni Konrad Ciesielski og son hans, Lothar, eftir að hafa veitt feðgunum eftirför um landið í fimm daga. Morgunblaðið sagði Konrad þekktan víða um Evrópu fyrir þjófnaði á fálkaungum og þar sem rökstuddur grunur lá á um það að hann hefði komið til landsins nokkrum árum fyrr í þeim erindagerðum að stela fálkaungum úr hreiðrum hefði þótt vissara að hafa á honum góðar gætur.

Fylgst var með ferðum feðganna. „Fóru þeir hægt yfir og stoppuðu víða og þá fyrst og fremst á stöðum, þar sem fálka- og arnarvarp er,“ sagði Morgunblaðið um ferð feðganna norður í land.

Þeir voru handteknir við komuna til Reykjavík en höfðu hvorki fálkaegg né unga í fórum sínum en lögregla gerði upptækan ýmsan búnað, sem sagt var að hentaði vel til að komast á staði sem erfitt væri að ná til, t.d. að hreiðrum. „Voru þeir með í bílnum kaðla og sigbúnað, stengur með lykkju á endanum, sem fróðir menn segja að notuð sé til að krækja í fálkaunga úr hreiðrum og ennfremur búnað til þess að halda eggjum heitum.“

Fram kemur í fréttinni að tveimur árum áður hafi nokkrir fálkaungar fundist í kassa á salerni flugstöðvarinnar í Keflavík vorið 1976. „Var ljóst að fálkaveiðimenn höfðu ætlað að koma ungunum úr landi en orðið að skilja þá eftir í flugstöðinni. Við athuganir á farþegalistum kom í ljós, að þennan sama dag hafði fyrrnefndur Konrad Ciesielski farið af landi brott ásamt konu sinni og var talið víst að þau hjónin hefðu ætlað að smygla ungunum úr landi.“