Yfirskattanefnd felldi í síðasta mánuði ákvörðun ríkisskattsjóra úr gildi vegna verulegs annmarka á ákvörðuninni en niðurstaðan þótti ekki samrýmast verklags- og vinnureglum embættisins.
Hinn 26. september síðastliðinn kvað ríkisskattstjóri upp kæruúrskurð þar sem hann hafnaði beiðni kæranda um lækkun tekjuskattsstofns vegna andláts eiginkonu. Hafði kærandi uppi beiðni sína vegna skerts gjaldþols en samkvæmt lögum um tekjuskatt skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn um lækkun tekjuskatts ef mannslát hefur skert gjaldþol manns verulega.
Í málinu er uppi sá ágreiningur hvort kærandi hafi átt rétt á skattaívilnun vegna atburða sem urðu árið 2017 þar sem álagning væri vegna tekna ársins 2016.
Sambærilegt mál átti sér stað árið 2014 þegar yfirskattanefnd felldi úr gildi þá ákvörðun ríkisskattstjóra að synja manni um lækkun tekjuskattsstofns sökum veikinda. Þar taldi yfirskattanefnd túlkun ríkisskattstjóra á þessum tímamörkum of fortakslausa.
Í úrskurði sínum frá síðasta mánuði sagði yfirskattanefnd m.a. að niðurstaða í málinu frá 2014 þætti frekast styðja málaleitan kæranda og vísaði kærunni til nýrrar meðferðar ríkisskattstjóra.
teitur@mbl.is