„Ég gekk drullusvekktur upp stigann á Radina-leikvanginum í Tampere með fangið fullt af úlpum, upphitunartreyjum, vatnsbrúsum og fótboltaskóm, sem einhverjir höfðu gleymt við varamannabekkinn. Eða skilið eftir í svekkelsi, kannski með hugann við það að leggja skóna á hilluna eftir vonbrigðin,“ segir Þorgrímur í upphafi bókarinnar.
Þetta var í fyrrahaust og tapið sem blaut tuska í andlitið.
Búningsklefi Íslands var á 2. hæð og stiginn brattur. Efst í honum beið Aron Einar Gunnarsson „og hafði staðið þar dágóða stund, ber að ofan, eftir að hafa skipst á treyju við finnskan leikmann. Af hverju stóð hann þarna einbeittur, allt að því grimmur og lét engan bilbug á sér finna? Það kom í ljós þegar ég hafði lokið við að þramma upp síðustu þrepin, þungstígur.
Aron faðmaði mig þéttingsfast og sagði ákveðinn: „Við erum í þessu saman. Við töpum saman og við vinnum saman!“
Hann gekk síðan rösklega inn í búningsklefann, eins og hann væri algjörlega með næstu skref á hreinu. Hann hafði faðmað leikmennina, þjálfarana og starfsmennina, stappað stálinu í alla með sinni sterku þöglu nærveru og hlýju faðmlagi af því það var leikur eftir þrjá daga á Íslandi, gegn Úkraínu,“ segir Þorgrímur og bætir við: „Það er ástæða fyrir því að Aron er fyrirliði. Hann er leiðtogi innan vallar sem utan, algjörlega til fyrirmyndar, vex við hverja raun og gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.“