Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Fjölmennur félagsfundur í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar í fyrrakvöld samþykkti með lófaklappi viljayfirlýsingu GKG og Garðabæjar um breytingar á golfvelli og aðstöðu klúbbsins og tillögur að framtíðaruppbyggingu svæðisins. Bæjarráð og bæjarstjórn samþykktu viljayfirlýsinguna á fundum sínum í vikunni, en nánari útfærsla á eftir að fara í deiliskipulagsferli. Gert er ráð fyrir níu nýjum golfbrautum og nýju æfingahúsi í stað þess svæðis sem breytist með nýju skipulagi í Vetrarmýri.
Fái ekki síðri golfvöll
Starfshópur golfklúbbsins og bæjarins hefur undanfarið unnið að því að útfæra tillögu að framtíðarsvæði GKG eftir að ljóst varð að landnýtingu í Vetrarmýri og Hnoðraholti verður breytt. Markmiðið var að skila GKG ekki síðri golfvelli en til staðar er nú og vann Snorri Vilhjálmsson golfvallaarkitekt með starfshópnum.Í dag klukkan 11 verða í íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ opnuð tilboð í nýtt fjölnota íþróttahús með yfirbyggðum knattspyrnuvelli í Vetrarmýri og er stefnt að því að hefja framkvæmdir í september. Húsið verður þar sem núverandi höggsvæði golfklúbbsins er. Í stað þessa svæðis er áætlað að byggja viðbyggingu við núverandi íþróttamiðstöð GKG með 20 golfhermum, en áætluð stærð viðbyggingar er um 600-700 fermetrar.
Í grennd við Vífilsstaðavatn
Þá er stefnt að því að byggja nýjan níu holu golfvöll í stað Mýrarinnar og þegar hann verður tilbúinn verður GKG með 27 holu golfvöll. Nýja svæðið er sunnan við Íþróttamiðstöðina á Skyggnisholti, en leikið verður á Mýrinni þar til nýr völlur verður tilbúinn. Nýi völlurinn á að liggja í grennd við Vífilsstaðavatn og þaðan inn í skógræktarsvæðið upp að Leirdalsmynni.Fram kemur á heimasíðu GKG að almenn ánægja hafi verið með þessa framtíðarsýn á um 250 manna fundi í golfklúbbnum. Stefnt er að undirritun heildarsamnings um framtíðarskipulag svæðisins á næstu mánuðum í samræmi við viljayfirlýsinguna en heildarsamningurinn verður lagður fyrir nýja bæjarstjórn að loknum kosningum. Samkomulag um kostnaðarskiptingu mun verða hluti heildarsamningsins.
Klúbburinn
» Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar var stofnaður 1994.
» Núverandi vallarstæði GKG er í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ og í Leirdal ofan við Salahverfi í Kópavogi.
» Um tvö þúsund félagar eru í GKG og í þeim hópi fjöldi barna og unglinga.