Hvernig gengur barninu mínu í skólanum og hvernig líður því? Hvernig gengur samstarf foreldra við kennara? Þetta eru spurningar sem foreldrar velta oft fyrir sér. Það er eðlilegt að við foreldrar fylgjumst markvisst með hvernig börnunum okkar líður í skólanum og hvernig námið gengur. Það er okkar hlutverk að hvetja þau til náms og reyna eftir bestu getu að aðstoða þau við námið. Til þess að svo megi verða þurfum við góðar upplýsingar frá skólasamfélaginu, frá kennurum. Við þurfum að vera í góðu sambandi um þau verkefni sem liggja fyrir hverju sinni og það er okkar hlutverk að sjá til þess að börnin okkar læri heima.
Það verkefni getur verið mismunandi erfitt vegna þess að börnin okkar eru misjöfn og sum hafa fullt annað skemmtilegt að gera en að læra. Þeim hættir því stundum til að trassa námið og fara frekar að gera eitthvað sem þeim finnst skemmtilegra.
Mikilvægasta hlutverk okkar foreldra er uppeldishlutverkið og hluti þess er sú ábyrgð sem við berum með því að fylgjast vel með skólastarfinu og náminu. Til að efla færni foreldra á þessu sviði ætlar Miðflokkurinn að auka samtal og samstarf milli kennara og foreldra í skólum Kópavogs. Við vitum líka að til þess að skólarnir í Kópavogi verði í fremstu röð þá þarf að laða til bæjarins bestu kennarana. Það ætlar Miðflokkurinn að gera með því að skapa kennurum góð starfsskilyrði og betri kjör.
Í leikskólanum hafa leikskólakennarar yfirgripsmikla þekkingu á hegðun og framkomu barna og við foreldrar getum í auknum mæli nýtt okkur það. Foreldrar ungra barna hafa kallað eftir aukinni fræðslu um uppeldisaðferðir. Þess vegna ætlar Miðflokkurinn að bjóða foreldrum barna 6 ára og yngri að sækja námskeið þar sem kenndar eru aðferðir og viðbrögð við hegðun barna. Þau námskeið eru liður í lýðheilsustefnu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, setti af stað þegar hann stofnaði ráðherranefnd um lýðheilsu. Með því að auka færni foreldra við uppeldið er einnig hægt að hafa áhrif á heilbrigðan lífsstíl barna og ungmenna, þ.e.a.s. hvíld, svefn, hreyfingu, mataræði og sporna þannig gegn lífsstílstengdum sjúkdómum.
Ef þú, kjósandi góður, ert sammála okkur og hefur áhuga á þessum málum er sterkur leikur að merkja X við M þann 26. maí. XM lýðheilsukveðjur.
Höfundur er varaþingmaður og uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur. Hún skipar 4. sæti framboðslista Miðflokksins í Kópavogi og var verkefnisstjóri ráðherranefndar um lýðheilsu.