Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Lífið hefur verið óskaplega gott við mig og ég á mörgum mikið að þakka. Heilsan er góð og auðvitað er stórkostlegt að geta farið út í göngutúr alltaf þegar gott er veður. Það hefur gefið mér mikið,“ segir Kristín Helgadóttir, sem er 100 ára í dag. Hún er Landeyingur að uppruna, bjó í áratugi á Selfossi en hefur síðustu árin dvalist á Sólvöllum, dvalarheimili aldraðra á Eyrarbakka. Hún heldur upp á afmælið í dag og hefur góðum gestum verið boðið í kaffi af því tilefni.
Kristín er frá bænum Ey í Vestur-Landeyjum, dóttir Helga Pálssonar og Margrétar Árnadóttur bænda þar. Hún ólst upp við öll algeng sveitastörf en fór seinna í vist og þjónustustörf í Reykjavík, eins og alsiða var á þeim tíma. Árið 1955 fluttist Kristín með dóttur sína, Önnu Þóru Einarsdóttur, á Selfoss til þess að vera Arnheiði systur sinni til halds og trausts, en hún hafði þá barnshafandi misst mann sinn frá ungum syni.
Fannst gaman að ferðast
„Ég festi rætur á Selfossi og vann lengi hjá Kaupfélagi Árnesinga og sinnti þar ýmsum störfum,“ segir Kristín, sem var lengi í sambúð með Einari heitnum Sigurjónssyni vegaverkstjóra. „Þegar við Einar kynntumst hafði hann misst konuna sína frá fimm börnum, sem öll urðu sem mín eigin og hafa reynst mér vel. Við Einar, sem lést árið 2003, áttum frábæran tíma saman og ferðuðumst mikið bæði innanlands og utan. Fórum til dæmis oft í sólina á veturna en í innanlandsferðir á sumrin, sem var mjög skemmtilegt,“ segir Kristín, sem er enn vel ern og fylgist með málefnum líðandi stundar.„Sjónin er nokkuð farin að gefa sig svo ég horfi lítið á sjónvarpið eða les blöðin. Hins vegar hlusta ég mikið á útvarpið, ýmsa fína músík og svo er kvöldsagan þessar vikurnar afar skemmtileg; lestur Þorsteins Hannessonar á Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson,“ segir Kristín að síðustu.