Laugar Útbúin þrautabraut fyrir unglingabúðir í Sælingsdal.
Laugar Útbúin þrautabraut fyrir unglingabúðir í Sælingsdal. — Morgunblaðið/Eggert
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Arnarlón ehf. sem viljað hefur kaupa eignir Dalabyggðar á Laugum í Sælingsdal en hefur ekki uppfyllt skilyrði tilboðs síns hefur lagt fyrir sveitarstjórnina tillögu að lausn.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Arnarlón ehf. sem viljað hefur kaupa eignir Dalabyggðar á Laugum í Sælingsdal en hefur ekki uppfyllt skilyrði tilboðs síns hefur lagt fyrir sveitarstjórnina tillögu að lausn. Felst það í því að kaupandinn fellur frá kaupum á jörðinni Sælingsdalstungu og mun kaupverðið lækka sem því nemur.

Samkomulag var um að Arnarlón ehf. keypti eignir Dalabyggðar á Laugum þar sem áður var rekinn grunnskóli. Þar eru skólahús, heimavistir, íþróttahús, sundlaug og fjögur íbúðarhús auk hótelálmu með 20 herbergjum sem eru áföst skólahúsinu. Þá fylgja hlutir úr jörðum. Á Laugum hefur verið rekið sumarhótel og ungmennabúðir á vetrum. Arnarlón hyggst efla þar ferðaþjónustuna.

Sveitarstjórn féllst á að lána hluta kaupverðsins gegn fyrsta eða öðrum veðrétti en kaupandinn mun ekki hafa getað fjármagnað kaupin með því móti, að minnsta kosti óskaði hann eftir því að veðið yrði fært á 3. veðrétt. Það gat sveitarstjórn ekki sætt sig við og sleit viðræðunum.

Fá áfram fullt verð

Í frétt á vef Dalabyggðar í fyrradag kemur fram að Arnarlón hafi gert athugasemdir við þessa afgreiðslu á þeim forsendum að drög að samningum hafi verið til umræðu en ekki endanlegir samningar til samþykktar eða synjunar.

Lagði Arnarlón fram tillögu til lausnar á málinu. Jörðin Sælingsdalstunga verði undanskilin í viðskiptunum og kaupverðið lækkað um 55 milljónir kr. Tilboð fyrirtækisins var sundurliðað á sínum tíma og þetta var söluverð jarðarinnar.

Arnarlón áskilur sér jafnframt kauprétt og forkaupsrétt á þeim hluta Sælingsdalstungu sem skipulagður hefur verið fyrir frístundahúsabyggð og golfvöll. Meginhluti jarðarinnar, þar á meðal allt beitilandið, yrði þá áfram í eigu Dalabyggðar en um það hafði einmitt verið kurr meðal nágrannabænda þegar til stóð að selja jörðina.

Sveinn Pálsson sveitarstjóri segir að ef þetta gengur eftir fái Dalabyggð sama söluandvirði fyrir eignirnar og áður var áætlað en haldi eftir meginþorra lands Sælingsdalstungu. Seljendalán verði á 2. veðrétti, á eftir láni Byggðastofnunar, og mönnum líði ágætlega með þá stöðu. Hann segist hinsvegar ekkert vita um niðurstöðuna en tillaga Arnarlóns verður lögð fyrir fund sveitarstjórnar 24. maí, tveimur dögum fyrir kosningar. Aðspurður tekur hann fram að sveitarstjórn hafi unnið að þessu máli í mörg ár og hún hafi fullt umboð fram að kosningum og starfi raunar fram að fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn hefur áformað að nota söluandvirði eignanna til að byggja nýja íþróttaaðstöðu við grunnskólann í Búðardal en þeim áformum var frestað þegar menn töldu að ekki yrði af sölunni.