Úlfarsárdalur Hverfið hefur verið að byggjast upp undanfarin ár. Þegar það er fullbyggt verða þar um 1.300 íbúðir.
Úlfarsárdalur Hverfið hefur verið að byggjast upp undanfarin ár. Þegar það er fullbyggt verða þar um 1.300 íbúðir. — Mynd/Reykjavíkurborg
Sigtryggur Sigtrygsson sisi@mbl.is Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimtudaginn að halda nýtt útboð á lausum lóðum í Úlfarsárdal innan tveggja mánaða og hafna tilteknum tilboðum sem gerð voru í lóðaútboði í lausar lóðir í Úlfarsárdal sem lauk 4.

Sigtryggur Sigtrygsson

sisi@mbl.is

Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimtudaginn að halda nýtt útboð á lausum lóðum í Úlfarsárdal innan tveggja mánaða og hafna tilteknum tilboðum sem gerð voru í lóðaútboði í lausar lóðir í Úlfarsárdal sem lauk 4. maí síðastliðinn.

Á útboðsfundi sem haldinn var í kjölfar útboðsins staðfestu bjóðendur tilboð í byggingarrétt fyrir 177 íbúðir af þeim 255 íbúðum sem boðnar voru, eða tæp 70%. Heildarupphæð staðfestra tilboða í byggingarrétt var 755 milljónir króna fyrir utan gatnagerðargjöld sem áætluð eru um 300 milljónir. Ekki voru staðfest tilboð í byggingarrétt í Úlfarsárdal fyrir 78 íbúðir og munar þar mest um 46 íbúðir í fjölbýli.

Hæstu gildu tilboð í byggingarrétt án gatnagerðargjalda voru eftirfarandi í krónum talið. Í sviga er verð per fermetra:

• Einbýli: 6.547.000 (23.807)

• Parhús: 20.000.500 (32.521)

• Tvíbýli: 7.323.000 (26.154)

• Raðhús: 37.500.000 (46.875)

• Fjölbýli: 319.200.000 (35.000)

„Niðurstöður þessa útboðs sýna að enn er eftirspurn eftir byggingarrétti lóða og það mælir með að haldið verði annað útboð vegna samkeppnissjónarmiða,“ segir m.a. í greinargerð skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sem lögð var fram á fundi borgarráðs.

Ráðið stóð frammi fyrir tveimur valkostum, að bjóða lóðirnar út eða selja þær á föstu verði.

Fram kemur í greinargerðinni að ekki var gert gilt tilboð í byggingarrétt á einni fjölbýlishúsalóð með 46 íbúðum fyrir lögaðila og óseldur er byggingarréttur á átján einbýlishúsalóðum fyrir einstaklinga, byggingarréttur á fjórum tvíbýlishúsalóðum fyrir einstaklinga og byggingarréttur á tveimur raðhúsalóðum fyrir einstaklinga.

Þá samþykkti borgarráð, að ósk skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, að hafna tilboðum í þrjár einbýlishúsalóðir. Við heildartölu á lóðum fyrir einbýlishús munu því bætast þrjú hús þar sem einungis eintaklingum er heimilað að bjóða í byggingarrétt.

400 íbúðir í uppbyggingu?

Byggingarrétturinn, sem nú var boðinn út, tilheyrir bæði grónari hluta hverfisins sem og nýju svæði við Leirtjörn. Nýlega var ráðstafað byggingarrétti við Leirtjörn fyrir 148 íbúðir, m.a. til Búseta og Bjargs íbúðafélags sem rekin eru án hagnaðarmarkmiða. Að því gefnu að borgarráð samþykki niðurstöður tilboða eru um 400 íbúðir að fara í uppbyggingu í Úlfarsárdal.
Dalurinn
» Úlfarsárdalur er íbúðasvæði í suðurhlíðum Úlfarsfells.
» Í Úlfarsárdal verður 1.300 íbúða hverfi .
» Við Úlfarsá er að rísa 16.000 fermetra mannvirki sem verður menningarmiðja Grafarholts og Úlfarsárdals. Það mun hýsa leikskóla, grunnskóla, frístundir, menningarmiðstöð, almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús. Íþróttafélag hverfisins er Fram.