Fundið Við Skólaveg stendur þetta hús sem gleymdist í nokkurn tíma.
Fundið Við Skólaveg stendur þetta hús sem gleymdist í nokkurn tíma. — Ljósmynd/Fasteignavefur mbl.is
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Við Skólaveg 5 í Hnífsdal má finna 130 fermetra einbýlishús sem staðið hefur autt í nokkur ár, en fasteignin er í eigu Íbúðalánasjóðs.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Við Skólaveg 5 í Hnífsdal má finna 130 fermetra einbýlishús sem staðið hefur autt í nokkur ár, en fasteignin er í eigu Íbúðalánasjóðs. Þegar nágrannar höfðu samband við sjóðinn, meðal annars til að kvarta undan órækt í garði hússins og útbreiðslu kerfils þaðan í nálæga garða, kom í ljós að húsið var ekki skráð á sölu. Hafði þá gleymst að setja fasteignaauglýsinguna aftur í birtingu eftir að ákveðið var að taka hana tímabundið út af sölusíðum.

„Ég held að þetta hús sé nú bara að verða ónýtt – það er orðið hálfmyglað að innan,“ sagði íbúi í Hnífsdal í samtali við Morgunblaðið. „Húsið lítur sæmilega út að utan, en það er kerfill í öllum garðinum og hann er farinn að breiða vel úr sér,“ bætti Hnífsdælingurinn við, en tekið er sérstaklega fram í fasteignaauglýsingu hússins, sem birt var í vikunni, að lóðin sé „falleg og gróin“.

Þar segir einnig um húsið að gólf séu léleg, gler og gluggar ónýtir og að „miklar rakaskemmdir og mygla“ sé í veggjum og lofti. Þá er innrétting í eldhúsi ónýt sem og baðkarið, þakkantur lélegur og múrskemmdir utanhúss. Svipaða sögu má segja af bílskúr hússins, en hann er sagður í „mjög lélegu ásigkomulagi“. Fæst húsið keypt á 7,5 milljónir króna.

Nýtt verðmat skemmdi fyrir

Hjá Íbúðalánasjóði fengust þær upplýsingar að söluauglýsingin hefði verið fjarlægð úr birtingu þegar verið var að framkvæma nýtt verðmat. „[E]n vegna mannlegra mistaka var hún ekki sett inn á ný.“ Þá harmar Íbúðalánasjóður þessi mistök og hefur í kjölfarið „hert eftirlit með því að allar eignir sem sjóðurinn er með til sölu séu aðgengilegar almenningi á netinu“.