Það hlýtur að vera nokkuð óþægilegt fyrir leikmenn Pepsi-deildar karla í knattspyrnu að mæta Birki Má Sævarssyni núna áður en HM byrjar.
Það hlýtur að vera nokkuð óþægilegt fyrir leikmenn Pepsi-deildar karla í knattspyrnu að mæta Birki Má Sævarssyni núna áður en HM byrjar. Það vill enginn Íslendingur hafa það á samviskunni að hafa tekið einn byrjunarliðsmanna íslenska landsliðsins út með klaufalegri tæklingu, svona rétt áður en þjóðin fer algjörlega yfir um vegna frumraunarinnar á stærsta sviðinu.

Birkir sjálfur virkar á mann sem algjör heiðursmaður sem myndi ekki erfa það við andstæðing að fara af hörku í návígi, en stuðningsmenn íslenska landsliðsins (= allir Íslendingar) myndu seint fyrirgefa það ef afleiðingarnar yrðu á borð við þær sem áður segir.

Sara Björk Gunnarsdóttir getur í dag orðið þýskur bikarmeistari takist Wolfsburg að vinna Bayern München í úrslitaleiknum. Sara er þegar búin að fagna þýska meistaratitlinum annað árið í röð og varð einnig bikarmeistari með Wolfsburg í fyrra.

Með sigri á Bayern ætti Wolfsburg enn möguleika á að vinna þrennuna eftirsóttu, því liðið er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og mætir þar Lyon næsta fimmtudag.

Úrslitaleikurinn verður í Kænugarði og þar mun ofanritaður verða meðal áhorfenda enda ekki á hverjum degi sem Íslendingur leikur úrslitaleik Meistaradeildar.

Raunar verður þetta í fyrsta sinn í sögunni sem íslensk knattspyrnukona kemst í úrslitaleikinn, og þarna bætist enn ein rósin í hnappagat Söru sem þrátt fyrir að vera bara 27 ára gömul hefur þegar skapað sér einstaklega farsælan feril, ekki bara á íslenskan mælikvarða.