Ólafur Egill hefur komið nálægt öllum sviðum leikhússins. Leikstjórn á hug hans allan sem stendur en hann nýtur þess að örva leikara til að fá það besta fram í þeim.
Ólafur Egill hefur komið nálægt öllum sviðum leikhússins. Leikstjórn á hug hans allan sem stendur en hann nýtur þess að örva leikara til að fá það besta fram í þeim. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Egill Egilsson hefur elt leiklistargyðjuna alla ævi. Hann segir leiklistina vera hugsjónastarf en hann hefur nú fundið ástríðu fyrir leikstjórn.

Ólafur Egill Egilsson hefur elt leiklistargyðjuna alla ævi. Hann segir leiklistina vera hugsjónastarf en hann hefur nú fundið ástríðu fyrir leikstjórn. Hann fæst einnig við handritaskrif en mynd hans og Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, er komin á hvíta tjaldið. Ólafur smitaðist af hugsjónum ömmu sinnar Herdísar Þorvaldsdóttur sem vildi banna lausagöngu sauðfjár til verndar gróðri. Bæði í lífinu og listinni vill hann leggja sitt af mörkum til þess að breyta heiminum. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Það er ljóst að líf leikarans, leikstjórans og handritahöfundarins Ólafs Egils Egilssonar er stútfullt af ævintýrum. Hann er með mörg járn í eldinum bæði í starfi og í einkalífinu; nýgiftur æskuástinni, nýkominn á fimmtugsaldurinn og nýbúinn að festa kaup á æskuheimilinu. Vinnan skiptist á milli RÚV, þar sem hann er handritsráðgjafi, og æfinga í Borgarleikhúsinu. En mörg önnur verkefni fylla daginn hans. Hann er nýlentur eftir frumsýningu í Cannes þar sem mynd hans og Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, fékk afar góða dóma og vann SACD-verðlaun fyrir besta handrit á Critic's week, hliðarhátíð Cannes-kvikmyndahátíðarinnar. Íslenskir áhorfendur fá að berja hana augum í næstu viku.

Leikari á hlaupum

Blaðamaður nær í skottið á Ólafi á milli æfinga í leikhúsinu og framkvæmda sem standa yfir á nýja heimilinu. Húsið keyptu þau hjón af foreldrum hans, Agli Ólafssyni og Tinnu Gunnlaugsdóttur, sem lögðust í skútusiglingar eftir farsæl ævistörf. Ólafur segir endurbætur að einhverju marki þarfar, en einnig vilja þau setja sitt mark á gamla æskuheimilið. Þar eru iðnaðarmenn að störfum og ryk í lofti og ljóst að ekki verður flutt inn á næstunni. Á meðan býr fjölskyldan hjá vinum og vandamönnum.

„Ég er svolítið tættur, er á hlaupum. Við vorum að flytja, það eru hugmyndadagar á RÚV og svo erum við í framkvæmdum á Grettisgötunni. Í Borgarleikhúsinu er ég að æfa einleik með Vali Frey Einarssyni stórleikara sem heitir Allt sem er frábært. Þetta er gleðieinleikur um þunglyndi. Þetta er bráðfyndið verk og ljúfsárt um leið, skrifað af Duncan Macmillan, sama sem skrifaði Fólk, staðir, hlutir. Frábær höfundur með afar næmt auga fyrir mennskunni. Þetta er líka dálítið sérstakt verk vegna þess að áhorfendur taka beinan þátt í sýningunni, stíga bókstaflega á svið og taka að sér hin ýmsu hlutverk,“ segir Ólafur en frumsýnt verður í haust.

Mín eigin málpípa

En í dag er hann spenntur fyrir Íslandsfrumsýningunni á Kona fer í stríð.

„Við Benni skrifuðum saman handritið, en það eru akkúrat fjögur ár síðan Benni hafði samband við mig með hugmynd að hápólitískum umhverfis-aksjón-þriller. Sem gæti kannski bjargað heiminum smá. Það var algjörlega frábært að ná að vera viðstaddur frumsýninguna í Cannes og upplifa viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda en dómarnir hafa eiginlega verið framar öllum vonum og ekki spillti fyrir að vinna SACD-verðlaunin sem veitt eru fyrir handrit. Þau eru veitt af félagssamtökum franskra handritshöfunda og þykja mikill heiður. En sagan er sem sagt hugmynd Benedikts og fékk hann mig með sér í lið að þróa og skrifa út,“ segir Ólafur sem fékk líka að leika lítið hlutverk í myndinni.

„Ég birtist aðeins. Ég leik þyrluflugmann sem viðrar á kjarnyrtan hátt skoðanir sínar á lausagöngu sauðfjár á Íslandi. Skoðanir sem ég hef eiginlega fengið í arf frá ömmu minni, Herdísi Þorvaldsdóttur, sem var mikil baráttukona fyrir gróðurvernd,“ segir Ólafur sem deilir téðum skoðunum afdráttarlaust með persónunni, enda skrifaði hann línurnar sínar sjálfur.

„Ég nýt þeirrar yfirburðastöðu þarna að vera bæði höfundur og leikari. Ég gat verið mín eigin málpípa. Amma háði langa og hatramma baráttu gegn lausagöngu sauðfjár. Eitt það albesta verkefni sem ég hef komið að er þegar við gerðum saman, ásamt frænku minni Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur, heimildarmynd um þetta efni, en amma var þá komin vel á níræðisaldur. Þá vildi hún gera mynd um þetta baráttumál sitt, lokaatlögu að lausagöngunni. Ég hafði enga sérstaka skoðun á þessu fyrirfram en við gerð myndarinnar sannfærðist ég alveg. Þetta er smám saman að breytast, enda langtum skynsamlegra að setja kindur inn í girðingar en ekki gróður. Í dag er það þó þannig á alltof mörgum svæðum að þeir sem vilja rækta landið upp, hvort sem það eru sumarbústaðarlönd eða skógrækt, þurfa að víggirða sig af, vegna þess að skepnur hafa allan rétt en gróðurinn engan. Þetta á jafnvel við um svæði sem landgræðslan hefur lýst algjörlega ónýt til beitar. Þetta snýst ekki um að útrýma fjallalömbum eða göngum og réttum, landið getur vel borið allt það fé sem á því lifir, þetta snýst um ábyrga beitarstjórnun, og líka um það að landið fái tóm til að gróa sára sinna,“ segir Ólafur og segir ömmu sína hafa haft græna fingur.

Hann sjálfur segist vera með ljósgræna. „Ég á land uppi á Kjalarnesi og er í smá skógrækt en mætti vel vera duglegri.“

Ég heyrði því fleygt að þú værir að auglýsa hey til sölu.

„Já, ég hef þurft að heyja,“ segir Ólafur og segir það ekki mikla búbót enda offramboð á heyi. Aðspurður segir hann heyið enn falt. „Ef einhver er að leita að heyi má hann gjarnan hafa samband við mig,“ segir hann og brosir.

Leikstjórinn sem hvíslar

Við vendum kvæði okkar í kross og hættum að tala um hey og kindur og snúum okkur að ævistarfinu; leiklistinni. Ólafur hefur verið með puttana í nánast öllu sem viðkemur leiklist; leikið, skrifað, leikstýrt, hannað búninga og sviðsmyndir, unnið við atvinnuleikhúsin þrjú, í sjálfstæðum leikhópum sem og í sjónvarpi og kvikmyndum. Ólafur samdi m.a. handritið að söngleiknum Elly ásamt Gísla Erni Garðarssyni sem var sýndur fyrir fullu húsi í vetur og mun halda áfram í haust.

Ertu svona fjölhæfur?

„Framan af var þetta spurning um að hafa í sig og á. Ég gerði búninga og vann í leikhópum áður en ég fór í leiklistarskólann og svo eftir útskrift buðust mér engin hlutverk og þá fór ég að gera leikmyndir. Gerði leikmyndir fyrir stórsýningarnar Fame og Grease og það var heilmikil áskorun. Ég bý að allri þessari ólíku reynslu í dag. Ég fór líka að skrifa og reyna að viða að mér þekkingu í dramatúrgíu, sem okkur vantar eiginlega gott íslenskt orð yfir, en snýr meðal annars að uppbyggingu leiktexta, en þetta hjálpaði mér mikið í vinnunni sem leikari. Sumt gerði ég á sínum tíma af nauðsyn og annað af forvitni en svo fór þetta að næra hvað annað. Að hafa verið aðeins í öllu. Svo bauð Gísli mér að vera með í Rómeó og Júlíu Vesturports og það ævintýri allt saman hófst og leikarastarfið tók dálítið yfir. Ég hélt samt alltaf áfram að skrifa, tók þátt í því að gera fyrstu seríuna af Ófærð, skrifaði fjölmargar leikgerðir, ein sex kvikmyndahandrit og núna í seinni tíð hef ég fengið þónokkur tækifæri til að leikstýra. Og þá kemur þetta allt heim og saman. Ég hef mikla ánægju af því.“

Hvað er það við leikstjórnina sem heillar, er það að fá að stjórna öðrum?

„Já, nei, það er sko örugglega ekki að stjórna öðrum. Ég er meira og minna búinn að gefast upp á því að reyna að stjórna öðru fólki. Svo er það eiginlega ekki rétt að leikstjóri stjórni. Verkstjórnin sjálf er svo lítill hluti af þessu öllu. Hlutverk leikstjórans eins og ég sé það er fyrst og fremst að örva sitt samstarfsfólk; fá alla aðstandendur til þess að líða vel, finna öryggi í því sem þeir eru að gera svo það besta í þeim geti blómstrað. Leikarastarfið gengur svo mikið út á það að byggja upp sjálfstraust. Finna leið til að túlka persónu sína á sannfærandi hátt, innanfrá og út á við. Leið sem maður getur skilið með haus og hjarta og staðið með, fyrir utan allt þetta praktíska, muna textann og standa berskjaldaður uppi á sviði. Ég veit af eigin raun að maður getur verið dálítið umkomulaus sem leikari, það er stöðugur efi í öllu sem maður gerir, nauðsynlegur. En ef maður hefur á tilfinningunni að leikstjórinn treysti manni ekki fyrir því að finna réttu leiðina, er eiginlega útilokað að maður finni hana. Þannig að ég lít miklu frekar á mitt starf sem leikstjóri sem einhvers konar leikörvari. Eða leikhvíslari. Ég reyni að vera ekki að ýta fólki heldur vil að hver og einn finni sinn eigin farveg í samhengi við verkið og uppsetninguna, þá geta töfrarnir gerst og allt lifnað við.“

Ólafur er fastráðinn hjá Þjóðleikhúsinu en er í góðfúslega veittu tveggja ára leyfi til þess að sinna öðrum verkefnum.

„Hjarta mitt slær með leikhópi Þjóðleikhússins þar sem ég hef unnið sem leikari síðasta áratuginn og rúmlega það, en það slær líka hér í Borgarleikhúsinu þar sem ég hef komið að fjölmörgum sýningum og það slær líka með Vesturportshópnum og reyndar líka fyrir norðan þar sem ég tókst á við mitt fyrsta stóra hlutverk og var að leikstýra síðasta vor. En ég er kannski ekkert alveg hættur að leika, en ég fæ alveg jafn mikið út úr því að sjá aðra leika og örva þá,“ segir Ólafur.

Leikarastarfið er hugsjónastarf

Hlutverk leikarans er margþætt að sögn Ólafs. „Leikarar eru yfirleitt næmt fólk sem hefur áhuga á mannlegu eðli og mannlegum samskiptum. Þeir vilja líka, svona almennt séð, búa til betri heim; þeir vilja að fólki, okkur, líði betur, að við fáum innsýn inn í eðli okkar og náungans, sjáum lífið í nýju ljósi. Þetta er hugsjónastarf. Við erum að vekja bræður okkar og systur til umhugsunar og láta þau spyrja: Er það svona sem við viljum hafa hlutina? Hvar ert þú staddur, kæri vinur, í þinni vegferð? Er þetta kannski eitthvað sem gæti reynst þér lærdómsríkt, þessi kvöldstund hér? Eða ertu kannski þreyttur og hefur þörf fyrir að láta skemmta þér? Eða má kannski minna þig á að vera þakklátur í lífinu? Þetta er hugsjónastarf, já. Meðal annars.“

Er fjallað um hugsjónir í myndinni Kona fer í stríð?

„Já, eins og ég sagði, Benni vildi gera mynd sem bjargaði heiminum smá. Það blasa við okkur risastór verkefni, mannskepnunni. Hvernig við getum haldið áfram að vera til í sátt við jörðina sem við búum á. Hvernig getum við varðveitt hana? Og framtíð afkomenda okkar. Sumir segja að tími aðgerða sé jafnvel liðinn. En jafnvel þótt svo væri, þá verðum við samt að gera eitthvað. Og þetta er kannski mynd sem fjallar um það að finna kraftinn inni í sér. Gefast ekki upp, gera það sem maður getur, hvert einasta handtak í rétta átt hjálpar. Það eru ýmis öfl sem hafa hagsmuna að gæta og vilja að ekkert verði gert. Það þarf að setja stór og mikil spurningarmerki við ýmsa hluti, og svo þarf maður líka að vera til og njóta þess á sama tíma,“ segir Ólafur.

„Kona fer í stríð er einlæg mynd sem ég held að geti snert við okkur öllum.“

Kom næstum nakinn fram

Það er auðvitað ekki langt að sækja hæfileikanna og áhugann en foreldrarnir Egill og Tinna, eru bæði landsþekkt fyrir leik og söng, auk þess sem amma hans Herdís Þorvaldsdóttir var ein ástsælasta leikkona landsins. Leiklist hefur því fylgt Ólafi frá blautu barnsbeini.

„Mig langaði ekkert alltaf að verða leikari, það var svona fram og tilbaka. Ég tók þátt í mörgum leiksýningum sem barn og fór oft með foreldrum mínum í vinnuna og sá ýmsar sýningar, stundum margoft. Mamma og pabbi léku bæði í Vesalingunum og bæði í Gæjar og Píur, og þá var stundum erfitt að fá pössun, þó þau hafi vissulega átt góða að. Ég fékk að kynnast ömmum mínum og öfum vel, sem er mér ómetanlegur fjársjóður, og föðursystir mín Ragnheiður og maðurinn hennar Pjetur Maack hlupu líka undir bagga og eru eiginlega skáforeldrar okkar systkinanna, gott fólk og hjartahlýtt.“

Ólafur segist leita mikið til foreldra sinna og leiklistin sé alltaf mikið rædd á heimilinu. Bróðir hans Gunnlaugur er ballettdansari í Svíþjóð þannig að flestir í fjölskyldunni hafa staðið á sviði.

„Þetta er fjölskyldufag. Við sjáum mikið leikhús og tölum mikið um það. Ég vissi nokkurn veginn hvað ég væri að fara út í þegar ég sótti um leiklistarskólann. Ég sá þetta ekkert í neinum hillingum. Ég vissi að þetta væri mikil vinna fyrir lítinn pening. Vinnutíminn er ekki sérlega fjölskylduvænn og það er mikil binding í þessari vinnu. Bæði dag frá degi, en sýningardaga er maður yfirleitt alveg undirlagður, og líka til lengri tíma. Leikarar eiga yfirleitt frí um páska og þegar leikhúsin loka á sumrin, en yfir veturinn er maður yfirleitt bundinn í báða skó. Ef þú ferð til leikhússtjóra og biður um frí, jafnvel með marga mánaða fyrirvara, svarar viðkomandi yfirleitt fullur hluttekningar: „við verðum bara að sjá til.““

Er ekkert þreytandi að standa uppi á sviði kannski í sextugasta skipti? Eða finnur maður alltaf einhvern neista?

„Er þreytandi að leggja flísar á enn eitt baðherbergið? Já, alveg örugglega. En ef þú reynir að gera það betur en síðast, setur eitthvað af sjálfum þér í verkið, þá hafa handtökin tilgang og vægi og þá er þreyta aukaatriði. Þetta kemur líka í bylgjum. Ég held ég hafi leikið í næstum því fjögur hundruð sýningum af Rómeó og Júlíu. Í London vorum við að leika á hverjum virkum degi, og tvisvar á laugardegi og tvisvar á sunnudegi. Stundum vissi maður ekkert hvar maður var staddur; er ég búinn að leika þessa senu eða er ég að fara að leika hana? Einu sinni lenti ég í að fara bara í vitlausan búning því mér fannst ég búinn að leika þetta og það væri komið eftir hlé. Þegar ég áttaði mig svo á mistökunum í sviðsvængnum var ekki um annað að ræða en að rífa sig úr búningnum og ég lék senuna á brókinni,“ segir hann og skellihlær.

Var það allt í lagi?

„Já, hvað segir ekki í laginu, allt fyrir frægðina nema að koma nakinn fram. Ég var ekki nakinn, en næstum því. Þetta var dálítið „panikk“. En það tók enginn eftir því, það komu engin kvörtunarbréf. Ég var reyndar að leika Jesú, þannig að það slapp alveg að vera á lendaskýlunni, þó þyrnikórónuna vantaði,“ segir hann og brosir.

Skipulagði óvænt brúðkaup

Ólafur segir foreldrana vissulega vera fyrirmyndir sínar í lífinu en aðrir hafa einnig haft áhrif. „Ég á einstaklega góða vini úr leikhúsinu og þeir eru mér stöðugur innblástur. Við erum mjög samheldinn vinahópur. Kona mín er leikkona, hún er líka mín fyrirmynd. Þolinmóð og skilningsrík, eins og ég er alltaf að reyna að vera. Ég skildi hana til dæmis aleina eftir í miðjum flutningum þegar ég fór til Cannes núna um helgina og hún þurfti að klára að pakka búslóðinni og gera og græja allt. Ætli ég verði ekki að taka hana til fyrirmyndar og lofa að gera þetta einn næst,“ segir hann og brosir.

Ólafur segist hafa kynnst konu sinni, Esther Taliu Casey í bernsku.

„Við kynntumst fyrst um sjö ára aldurinn og urðum par fimmtán ára. Við erum heppin að mörgu leyti, sum svona sambönd ná ekki alla leið og fólk vex sitt í hvora áttina og allt gott um það segja. En við höfum verið sundur og saman og upp og niður en alltaf náð í gegnum erfiðu kaflana. Brot úr hjónabandi sem ég setti upp með hjónunum Unni Ösp og Birni Thors, vinum úr mínum innsta kjarna, var nokkurs konar úttekt og uppgjör á sambandi okkar, og samböndum yfir höfuð. Og þegar það var frá fannst mér vera kominn tími fyrir okkur að gifta okkur, en það gerðum við síðasta vetur. Þá vorum við búin að vera saman í tuttugu og fimm ár,“ segir hann.

„Við giftum okkur á Café París á fertugsafmælinu og partíið stóð fram undir morgun,“ segir Ólafur sem kom Esther á óvart því brúðurin tilvonandi vissi ekki að til stæði að gifta sig þetta kvöld.

„Hún var búin að vera að tala um að ganga í það heilaga, af mörgum praktískum ástæðum, en hún er mjög praktísk. Hún vill hafa borð fyrir báru og vaðið fyrir neðan sig og allt það. Ég sá mér þarna leik á borði. Mig langaði alls ekki í mikla serímóníu, kirkju og allt það, og ég vissi svo sem að Esther var mér sammála svo ég ákvað að koma henni dálítið á óvart í sameiginlegu fertugsafmæli okkar, sem var yfirvofandi á árinu. Þá tók eiginlega við lengsta leikrit sem ég hef tekið þátt í. Leikritið: Æ nei, sleppum þessu bara. Þannig að ég dró úr þessu við hvert tækifæri. Á endanum var hún farin að bjóða það sem málamiðlun að við færum til borgardómara en ég sagðist enn vera tvístígandi. En við vorum búin að ákveða að halda þessa veislu, fertugsafmælin okkar, og buðum öllum vinum, vandamönnum og velunnurum. Samtímis lagði ég á ráðin með mínum nánustu, presturinn tók með sér skrúðann, brúðarvöndur var falinn undir borði og hringar með,“ segir Ólafur.

Enn vissi Esther ekkert hvað stæði til. „Veislustjórinn, Hlynur Páll, stórvinur okkar og lífskúnstner, var beðinn um að tilkynna að ef fólk stæði í þeirri meiningu að þetta væri brúðkaup, þá væri það alls ekki tilfellið. Hér stæði til að fagna fertugsafmæli og það væri nú aldeilis nóg,“ segir Ólafur.

„Svo stigum við Esther á stokk og buðum fólk velkomið en þegar ég fékk orðið bar ég upp bónorðið. Svipurinn á Esther var algjörlega óborganlegur og alveg þess virði að hafa platað hana í nokkra mánuði,“ segir Ólafur og hlær.

„Börnin okkar Eyja og Egill birtust svo með hringana og Pjetur Maack, skáfaðir minn, kominn í fullan skrúða, vöndurinn kom fljúgandi, tíu mínútum seinna vorum við gift. Pabbi tók svo fram gítarinn og spilaði fyrir okkur og hjónabandið var þar með innsiglað.“

Leikarar í leynilegum hlutverkaleik

Hvernig er að komast á fimmtugsaldur, er að færast yfir þig ró?

„Ég held að maður verði þakklátari með aldrinum. Lærir að nýta betur þann tíma sem manni er gefinn til þess að fá að elska aðra. Ég er að reyna að vanda mig í því,“ segir Ólafur.

„Það er yndislegur tími framundan. Börnin okkar Ragnheiður Eyja og Egill eru algjörir sólskinsgeislar,“ segir hann og segist reyna að nýta frítímann sem best með fjölskyldu og vinum. En eftir nánari samtal kemur í ljós að Ólafur á sér fleiri áhugamál; leyndarmál sem hann ákveður nú að ljóstra upp.

„Ég hef spilað hlutverkaspil síðan ég var unglingur. Það er nú ekki fjarri leiklist; menn taka að sér hlutverk og einn stýrir sögunni. Þetta eru oft fantasíur eða eins konar vísindaskáldsögur. Stundum leikur maður sömu persónuna mörg kvöld og jafnvel heilu árin. Þetta þótti óskaplega lúðalegt einu sinni en er bæði mannbætandi og skemmtilegt.“

Þannig að leikarar hittast sér til gamans og fara í hlutverk?

„Já, þeir gera það reyndar!“ segir hann og hlær.

„Spilahópurinn minn er bara skipaður fólki úr leikhúsinu. Ég kem út úr skápnum með þetta bara núna. Það getur verið ágætt að vera á fimmtugsaldri og spila hlutverkaleik eins og maður gerði þegar maður var tólf ára,“ segir hann og brosir breitt.

Megi það byrja með mér

Hvaða lífsreynsla hefur þroskað þig mest í lífinu?

„Það er nú svo margt held ég. Ég er ósköp seinþroska og hef alltaf tekið þetta út í síðbúnum rykkjum finnst mér. En ég nefni kannski tímabilið þegar ég ætlaði að bjarga systur minni frá þeirri vegferð sem hún var á og stóð þá skyndilega frammi fyrir mínum eigin vanmætti, minni eigin stjórnsemi og kvíða. Ég þurfti svolítið að gefast upp á því að gera hluti á hnefanum. Ég var svo heppinn að kynnast góðum manni sem var í einum af þessum ágætu tólf spora samtökum,“ segir Ólafur sem segir það hafa hjálpað sér mikið.

„Hvort sem maður fer í einhver samtök, leitar til sálfræðings eða fær góð ráð hjá vini, þá ber það allt að sama brunni. Þetta er einhvers konar endurnýjun sem maður kallar eftir sjálfur, meðvitað eða ómeðvitað, og þá er um að gera að leita eftir stuðningi eða hjálp til þess. Maður þarf ekki að standa frammi fyrir sínum breyskleikum og vandamálum einn, eins og margur heldur kannski. Ég held að allir líti á einhverjum tímapunkti inn á við, fari að skoða hvað sé að ganga upp og hvað ekki. Hvað við gerum svo í því og hvenær er svo annað mál. Ég mæli með fyrr frekar en seinna. Þetta var mikið gæfuspor fyrir mig. Svo þurfti systir mín auðvitað að finna út úr sínum málum á eigin spýtur, sem hún og gerði,“ segir hann.

„Ég hélt að ég þyrfti að hjálpa henni, en ég þurfti að byrja á sjálfum mér, eins og oft er raunin. Megi það byrja með mér, því minnsta eða mesta sem ég get gert. Það er ákveðin hliðstæða í þeirri hugsun við ferðalag hetjunnar í myndinni Kona fer í stríð; ég segi ekki meira því þá fer ég að gefa of mikið upp, en ég held að ef okkur á að takast að bjarga heiminum, þá er það þannig sem það gerist, hver og einn mokandi með sinni teskeið, eða skurðgröfu,“ segir hann kíminn.

Spurður hvað hefði mátt betur fara í lífinu, svarar Ólafur: „Eftirsjáin horfir afturábak, áhyggjurnar horfa fram og hvorugt hefur nokkuð með hina líðandi stund að gera í rauninni. Og þegar maður horfir of mikið aftur og of mikið fram, þá veit maður ekkert hvar maður er að setja fæturna. Þá getur oft farið verr en illa, sérstaklega ef maður ætlar að gera betur en vel.“