Alveg var þetta makalaus óheppni eina ferðina enn með Eurovision og nú kaus engin Evrópuþjóð lagið okkar, sem þjóðin sjálf valdi til sigurs. En ekki má sakast við hinn unga myndarlega mann Ara Ólafsson, hans verður vonandi framtíðin eins og Stefáns Íslandi þótt söngfrægðin hans minni á örlög Garðars Hólm forðum, en fall er fararheill. Og enginn er í vafa um að hann getur sungið, sem deilt var um með Garðar Hólm. Það á bara ekki að leggja svona þunga ábyrgð á barnungan mann, allt hefur sinn tíma. Hinsvegar vorum við með lagið sem hefði keppt um gull, silfur eða brons að mati margra, nefnilega Kúst og fæjó. Frábærlega sviðsvanar leikkonur, sem kalla ekki allt ömmu sína, hefðu séð og sigrað. Ég er auðvitað laglaus en ég sá að lagið hreif, allir dilluðu sér með og Eva mín 5 ára söng það af innlifun. Og flottar voru þær stöllur þegar þær stigu dansinn og drógust svo að hvor annarri og mynduðu landið okkar, með í bakgrunni heklaðar dúllur úr saumó, sjálft Ísland. Sagan um saumó svo frábær því saumaklúbbar hafa starfað um alla Evrópu í þúsund ár og gera enn og eru merkilegar félagsmálastofnanir. Uppruni þeirra alþjóðlegur og Kúst og fæjó hefði hitt beint í hjartað og inn á hvert einasta heimili í Evrópulöndunum. Hallgerður langbrók rak saumó í „dyngju,“ sinni á Hlíðarenda árið 990 og ræddi nákvæmlega sömu hluti og Lolla og þær stöllur um vandamál vinkvennanna þó Hallgerður væri uppteknari af því að gera grín að strákunum á Bergþórshvoli sem hún kallaði taðskegglinga. Þarna sjáum við: „einn dagur sem þúsund ár, þúsund ár dagur ei meir“, og að „hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu“. Saumó starfa um víða veröld, engar reglur, engin lög, bara gleði og hlátur, ekki grátur.
Ekkert sjó engin norðurljós?
Danir stálu víkingunum og urðu hástökkvarar kvöldsins, þeir voru orginal og gamansamir með sjó, sögu og áræði. Það var ekkert um að vera þarna úti á sviðinu hjá okkur eða umgjörðinni sem gladdi og minnti á ævintýrin öll á Íslandi sem ferðamenn þrá og koma að sjá. Hvar voru norðurljósin, hvar voru fossarnir, hverirnir, eldfjöllin, ólgandi brimið í fjörunni, jökullinn, rigningin, þokan, hvalurinn að bylta sér, íslenski hesturinn á skeiði með fjúkandi manir, forystukindin vitra eða smalarnir með hjörðina sína, skyrið eða lambakjötið? Hvað þá fáninn okkar. Nei, ekkert af þessu sýnt með en mér sýnist að flest lönd tíni inn í sviðs-myndina margt augnayndið úr sínu landi. Svo finnst þeim á RÚV víst að íslenskan sé voðalega hallærisleg og passi ekki með, en þær í Saumó ætluðu að nota málið undurfríða sem forsetinn nafni minn og hún Lilja Alfreðsdóttir „menntó“ eru að tala um að verði að lifa.
Brilljant hugmynd, Mugison í Eurovision
Við eigum marga fræga söngvara sem bæði semja texta og lög og slá í gegn. Hvernig væri t.d. að fela Mugison að fara næsta ár? Mugison er undrabarn, maður veit varla hvort hann er andi eða maður. Svo hittir maður hann og þá er hann bara venjulegur. Stundum kemur hann út úr þessum risafjöllum á Vestfjörðum, fer upp í ferðabílinn sinn, hringinn í kringum landið og fyllir öll hús og syngur með þessari seiðandi röddu. Honum virðist leiðast Reykjavík og heldur víst að öllum sem búa þar leiðist því hann bauð borgarbúum frítt í Hörpuna og þótt hún væri helmingi stærri var troðið út úr dyrum. Svo hefur hann með sér ævintýralegasta karlakór norðan Alpafjalla, Fjallabræður og allt verður geggjað.
Söngdrottning í íshelli
Eitt sinn fór ég með góðum félögum í íshellinn í Langjökli, fannst þetta ógnvænlegt þegar við gengum í röð inn í jökulinn eftir ísgöngum, svona eins og hermenn til aftöku. Ég hélt að færi fyrir mér eins og Bárði Snæfellsás, jökullinn myndi hirða mig og losa þjóðina við mig. En þá gerðist ævintýrið ung stúlka var leiðsögumaður okkar, allt í einu leiddi hún okkur inn í sönghelli eða óperuhöll í Jöklinum. Agndofa stóðum við þarna þegar hún hóf upp rödd sína í söng og mér fannst jökullinn opnast og „sól sló silfri á voga“ og „sástu jökulinn loga“. Hún semur og syngur og heitir Soffía Björg Óðinsdóttir, örugglega undrabarn sem gæti sigrað heiminn með rödd sinni og töfrandi krafti. Blessaðir Bakkabræður reyndu að bera sólina inn í gluggalausan bæinn sinn í skinnhúfunum sínum, en Soffía tók sólskinið með sér í hjartanu inn í jökulinn og við gengum brosandi út með sól í hjarta.
Ásgeir Trausti væri flottur
Enn einn vil ég nefna til leiks, þann þriðja, hann heitir Ásgeir Trausti Einarsson og kemur úr næst hógværasta héraði landsins, Vestur- Hún. Aðeins við Flóamenn erum hógværari, getum hvorki sagt já eða nei. Sagt var í gamla daga að ekkert væri fallegt í Vestur-Húnavatnssýslu nema Strandafjöllin sem í fjarlægð búa. En söngur og lög þessa unga manns slá í gegn hvar sem hann fer. Svo semur pabbi hans þessa líka ljómandi texta. Já, Íslendingar! Það er óþarfi að örvænta, við getum þetta eins og á HM, bara að finna: „Hinn rétta tón“, um það snýst Eurovision, og áfram svo.Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.