Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Tveir af sex prófessorum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands eru kaþólskrar trúar. Eitt af höfuðhlutverkum deildarinnar er að mennta presta og aðra starfsmenn hinnar lúthersku þjóðkirkju á Íslandi. Það er gert samkvæmt sérstökum samstarfssamningi deildarinnar við embætti biskups. Prófessorar deildarinnar eiga sjálfkrafa rétt til setu á prestastefnu, einn úr þeirra hópi situr á kirkjuþingi og þeir taka þátt í biskupskjöri. Það hefur þó nokkur undanfarin ár verið skilyrði fyrir kosningarétti við biskupskjör að viðkomandi prófessor sé innan þjóðkirkjunnar.
„Ég lít á það sem persónulegt mál hvaða kirkjudeild hver og einn tilheyrir. Þetta eru ekki opinberar upplýsingar,“ sagði Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, í samtali við Morgunblaðið, þegar hún var spurð að því hvort það hefði einhver áhrif á samband deildarinnar við þjóðkirkjuna að hluti hinna föstu kennara væri kaþólskrar trúar. Hún sagði að í deildinni ríkti akademískt frelsi eins og í háskólanum öllum og ráðningar í kennaraembætti færu ekki eftir trúarskoðunum.
Samkvæmt upplýsingum blaðsins gekk Rúnar Már Þorsteinsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum, í rómversk-kaþólsku kirkjuna um síðustu páska. Áður hafði Pétur Pétursson prófessor gengið sömu kirkjudeild á hönd.
Arnfríður segir að Guðfræði- og trúarbragðafræðideildin muni hér eftir sem hingað til uppfylla ákvæði samnings við biskupsembættið um starfsmenntun fyrir þjóðkirkjuna. Þegar hún var spurð að því hvort það skipti ekki máli hvaða trú guðfræðiprófessorar játuðu benti hún á að hér væri ekki um ólíka trú að ræða heldur aðild að mismunandi kirkjudeildum sem báðar játuðu kristna trú. Mjög mikilvægt væri að hafa þetta atriði í huga.
Arnfríður bætti því við að í sjálfu sér væri það ekki frágangssök þótt kennarar í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild væru ekki kristinnar trúar. Í deildinni eins og háskólanum almennt ríkti akademískt frelsi til kennslu og rannsókna. Samningurinn við biskup um starfsmenntun takmarkaði ekki akademískt frelsi einstakra kennara. Hins vegar væru í honum ákvæði um þjálfun nemenda í predikunarfræðum og öðrum fögum innan kennimannlegrar guðfræði fyrir þjóðkirkjuna og á því sviði gæti komið fram áherslumunur í kennslu. „En það er bara úrvinnslumál hér hvernig sá þáttur er leystur,“ sagði Arnfríður.