Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir hugmyndir Eyþórs Arnalds, borgarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins, um mislæg gatnamót á Miklubraut fela í sér afturhvarf til fortíðar. Verið sé að dusta rykið af 15 ára gömlum hugmyndum.
Fjallað var um hugmyndir Eyþórs í Morgunblaðinu í gær. Taldi Eyþór hagkvæmt að byggja mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, Háaleitisbrautar og Grensásvegar. Slík gatnamót myndu fækka slysum og verða hagkvæm.
„Þetta virkar á mig eins og það sé verið að dusta rykið af úreltum hugmyndum svo ég segi það alveg eins og er,“ segir Hjálmar. „Það eru ábyggilega fimmtán ár liðin síðan kynntar voru ekki ósvipaðar hugmyndir á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Eins og ég skil teikningarnar [sem fylgdu með viðtalinu við Eyþór] er ætlunin að grafa skurð sem Miklabraut er lögð í og hafa hringtorg ofan á stoðveggjum. Það getur komið til greina að setja slík mannvirki í útjaðri borgar en tæplega í miðri borg.“
Byggist á flökkusögu
„Þetta er enda afleitt fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Það er líka hæpin forsenda fyrir þessu öllu saman. Eyþór ræðir um að losna við ljósastýringu á gatnamótum. Það er einhver flökkusaga í gangi um að mislæg gatnamót séu alltaf öruggari en hefðbundin ljósastýrð gatnamót.Við í umhverfis- og skipulagsráði erum nýbúin að fá kynningu á umferðaröryggisáætlun. Þar fylgir úttekt á slysum á árunum 2012-2016. Þar kemur í ljós að stóru slaufugatnamótin við Elliðaárnar, vestan við Ártúnsbrekkuna, eru ein slysamestu gatnamót borgarinnar. Þar verða líka alvarleg slys og banaslys,“ segir Hjálmar sem telur lokaðan stokk betri lausn, enda bjóði það upp á þéttingu byggðar við götuna.