Ég er einn af þeim sem fara með sól í sinni og klæddir í sparifötin á kjörstað.
Þannig sé ég fyrir mér 26. maí næstkomandi, þegar kosið verður til borgarstjórnar Reykjavíkur.
Margar góðar ástæður eru til að hlakka til þess dags, ekki síst ef borgarbúum lánast að losna við utangátta ráðstjórnina úr Ráðhúsinu.
Nú er óvenju fjölbreytt val enda 16 listar í boði, þannig að allir ættu að finna einhvern framboðslista við sitt hæfi.
Það er vel. Á nýliðnu kjörtímabili starfaði ég sem áheyrnarfulltrúi í hverfisráði Laugardals og þekki að því leyti betur til starfa hinna ýmsu borgarfulltrúa en fjölmiðlar hafa greint frá.
Ef marka má skoðanakannanir virðist gott framlag Sveinbjargar Birnu, óháðs borgarfulltrúa, ekki hafa náð verðskuldaðri athygli borgarbúa. Það er miður og úr því vil ég bæta.
Skipulagsslys
Allt kjörtímabilið reyndi Sveinbjörg að vekja athygli fráfarandi meirihluta ráðstjórnarinnar á þeirri blindgötu sem hann stefnir að í skipulagsmálum. Má þar nefna trassaskap í úthlutun lóða fyrir íbúðabyggð, óvild í garð flugvallarins og þrengingu stofnbrauta frá norðri til suðurs, sem er ekki aðeins óþægileg fyrir þá sem sitja fastir í umferð heldur beinlínis hættuleg í neyðartilvikum. Einnig má nefna þéttingu byggðar án bílastæða og í sama stíl og fyrirhugað þjóðarsjúkrahús við Hringbraut, þar sem gestir og starfsmenn þurfa að leggja bílum í nærliggjandi hverfum, sé þess kostur. Þá hefur Sveinbjörg gagnrýnt að gömul kosningaloforð um Sundabraut eru svikin, með því að athafnamaðurinn Ólafur Ólafsson fékk góðfúslega leyfi Dags fyrir íbúðabyggð þar sem brautin átti að koma. Nú, þegar kemur að skuldadögum, dregur Dagur upp einhverja óljósa borgarlínu úr pípuhatti sínum. Fáum dylst þó að þessi lína myndi kafkeyra borgarsjóð sem er verulega skuldsettur.
Gæluverkefni eða lögbundin þjónusta?
Sveinbjörg hefur gagnrýnt sóun fjármuna borgarinnar í æðstu yfirstjórn, – glórulausa eyðslu í ónauðsynlegar nefndir og embætti til að hygla pólitískum vildarvinum. Allt þetta hefur gerst á sama tíma og lögbundin verkefni sveitarfélagsins eru sniðgengin. Ábyrg og heiðarleg stjórnun fjármála borgarinnar þýðir að meiri peningar eru afgangs til þjónustu við borgarbúa. Þannig getur meirihlutinn sakast við sjálfan sig fyrir að hafa í 8 ár svikið íbúa Laugardalshverfisins um aðstöðu til innanhúsíþrótta. Þessu ætlar Sveinbjörg m.a. að breyta fái hún til þess umboð.Vissulega eru komin fram mörg framboð, auk framboðsins „Borgin okkar“, sem taka undir þennan málflutning Sveinbjargar og vona ég borgarbúa vegna að þeim gangi vel.
Höfundur starfar við blaðamennsku. siggi@ginseng.is