Níels S. Olgeirsson
Níels S. Olgeirsson
Níels S. Olgeirsson, fyrrverandi formaður Matvæla- og veitingafélags Íslands, Matvís, segir mörg dæmi um að pottur sé brotinn í veitingarekstri í miðborginni. Hröð fjölgun veitingastaða feli í sér margvíslegar áskoranir.

Níels S. Olgeirsson, fyrrverandi formaður Matvæla- og veitingafélags Íslands, Matvís, segir mörg dæmi um að pottur sé brotinn í veitingarekstri í miðborginni. Hröð fjölgun veitingastaða feli í sér margvíslegar áskoranir.

„Undanfarin ár hefur verið áskorun að manna staðina. Það tekur fjögur ár að mennta mannskapinn í matreiðslunni og þrjú ár í framreiðslunni. Sú fjölgun útskrifaðra nemenda dugir ekki til því þróunin er svo hröð. Þetta er orðinn svolítill frumskógur. Frumskógarlögmálið er látið ráða í miðbænum. Það er vísvitandi svínað á fólki. Það er mikið álag og mikil keyrsla,“ segir Níels.

Hann segir veitingamenn ítrekað brjóta á kjarasamningsbundnum réttindum félagsmanna í Matvís. „Við höfum haft í nógu að snúast við að leita réttar okkar félagsmanna. Menn fara út fyrir öll velsæmismörk í að túlka kjarasamningana og losa sig undan ýmsum þáttum sem eru í kjarasamningum. Þetta komast menn upp með í krafti þess að það er verið að ráða marga útlendinga. Þeir þekkja síður sína stöðu. Svo er verið að setja þá í röng stéttarfélög. Við önnum ekki vinnustaðaeftirlitinu. Við náum ekki utan um það. Þetta er orðið svo mikið,“ segir Níels sem segir Matvís hafa lagt mikið upp úr slíku eftirliti.