Jane Fonda á Óskarsverðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðnum.
Jane Fonda á Óskarsverðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrátt fyrir erfiðleika sýndi Jane Fonda ung að hún ætlaði sér stóra hluti og var farin að kenna dans aðeins 15 ára gömul
Jane Fonda fæddist 21. desember 1937. Hún er því nýlega búin að fagna áttræðisafmæli sínu og margir segja hana á hátindi leikferils síns, með aðalhlutverki sínu í einum vinsælustu þáttum Netflix, gamanþáttunum Grace and Frankie. Í vikunni sýndi HBO-sjónvarpsstöðin nýja heimildamynd um Fonda þar sem hún þykir sýna á sér nýjar hliðar, en sjálf ber hún marga titla; hún er leikkona, rithöfundur, atkívisti, fyrirsæta og líkamsræktarfrömuður. Fonda er dóttir Frances Ford Seymour sem var af kanadískum yfirstéttarættum og leikarans Henry Fonda og á einn bróður, Peter Fonda, sem einnig er leikari, og hálfsysturina Pilar Corrias sem á listagallerí í London.

Þegar Jane Fonda var 12 ára svipti móðir hennar sig lífi, þremur mánuðum eftir að Henry Fonda sótti um skilnað. Þegar Jane Fonda fór síðar yfir eigur móður sinnar, á fullorðinsárum, kom í ljós að hún hafði verið beitt kynferðislegu ofbeldi átta ára gömul. Jane Fonda sagðist hafa betri skilning á erfiðleikum móður sinnar þegar hún komst að þessu. Faðir hennar giftist þá annarri konu sem var aðeins níu árum eldri en Jane Fonda.

Þrátt fyrir erfiðleika sýndi Jane Fonda ung að hún ætlaði sér stóra hluti og var farin að kenna dans aðeins 15 ára gömul. Hún fór einnig snemma að sinna fyrirsætustörfum en leiklistin kom fljótt til sögunnar en eftir að hafa flosnað upp úr menntaskóla í New York, þar sem hún ólst upp, fór hún til Parísar í listaskóla. 21 árs fór hún aftur til Bandaríkjanna og hitti þar leikstjórann og leikarann Lee Strasberg sem breytti lífi hennar en hann sá hæfileika hennar og hvatti áfram. Fonda hefur sagt að Strasberg hafi verið sá fyrsti í hennar lífi, fyrir utan föður hennar, sem benti henni á að hún væri góð í einhverju yfirhöfuð og hefði hæfileika. Eftir þennan fund vaknaði hún og vissi að hún ætlaði að verða leikkona. Tveimur árum síðar kom hún fram í fyrsta skipti á Broadway og var tilnefnd til tvennra Tony-verðlauna og birtist í fyrsta skipti á hvíta tjaldinu það sama ár í Tall Story. Hún lék í fjölda frægra bíómynda árin á eftir og var tilnefnd til Óskarsverðlauna í fyrsta sinn í They Shoot Horses, Don't They? árið 1969 og hún hefur tvisvar unnið Óskarsverðlaun fyrir leik, tvisvar BAFTA-verðlaunin og fjórum sinnum hafa Golden Globe-verðlaunin fallið henni í skaut. julia@mbl.is