Nýlega var til moldar borinn í Bandaríkjunum Morris Halle, annálaður hljóðkerfisfræðingur við MIT-háskóla. Áratugum saman starfaði hann þar náið með Noam Chomsky, kunnasta málfræðingi samtímans og þeim núlifandi fræðimanni sem mest er vitnað í. Halle kaus fremur að vinna á bak við tjöldin en átti ekki síður þátt í að gera málvísindadeildina í MIT að stórveldi. Chomsky setti fram kenningar um mannlegt mál út frá algildismálfræðinni sem hann telur liggja öllum tungumálum til grundvallar. Halle beindi kröftum sínum aftur á móti að rannsóknum á hljóðkerfi ensku og rússnesku í samræmi við algildismálfræðina.
Ekki gat farið hjá því að nemendur Halles við MIT beindu athyglinni að íslensku, enda er hljóðkerfi hennar um margt frábrugðið því sem gengur og gerist í öðrum evrópskum málum. Ófáar skarplegar hugmyndir hafa verið settar fram á þessu sviði af erlendum málfræðingum. Íslendingum ætti þó sjálfum að renna blóðið til skyldunnar þar sem rannsóknir á íslenska hljóðkerfinu eiga sér langa sögu sem nær aftur á miðaldir. Einn frumlegasti málfræðingur allra tíma var uppi á Íslandi á 12. öld og ritaði stórmerka bók um íslenska hljóðkerfið sem nefnd er Fyrsta málfræðiritgerðin. Hann er jafnan kallaður Fyrsti málfræðingurinn því að honum láðist að geta um nafn sitt, rétt eins og höfundum Íslendinga sagna.
Að vísu var markmið þessa nafnlausa fræðimanns fyrst og fremst að búa til nothæft stafróf handa Íslendingum. Hann vildi að ritmálið endurspeglaði hljóðkerfið eins nákvæmlega og unnt var. Höfundurinn hafði þó ekki erindi sem erfiði og tillögur hans og aðferðir féllu í grýtta jörð. Þótt ritið næði ekki þeim hagnýta tilgangi sem því var ætlaður og hið fræðilega framlag færi fyrir ofan garð og neðan hjá samtímamönnunum – og yrði ekki metið að verðleikum fyrr en á 20. öld – lifir það sem óbrotgjarn minnisvarði um snjalla málvísindalega greiningu á forníslenska hljóðkerfinu.
Fyrsti málfræðingurinn var sannarlega ekki síðastur Íslendinga til að rýna í tungumálið og eðlisþætti þess. Fleiri fornar málfræðiritgerðir eru til; auk þeirrar fyrstu og merkustu eru þrjár aðrar varðveittar í Ormsbók Snorra Eddu. Á okkar dögum hafa mikilvirkir fræðimenn tekið við kefli forfeðranna og þróað þær aðferðir sem eldri kynslóðir komu fram með. Kristján Árnason, prófessor emerítus við Háskóla Íslands, hefur hvað mest rannsakað hljóðkerfi íslensku að fornu og nýju. Hann hefur meðal annars ritað mjög áhugaverða bók um íslenska hljóðkerfið sem kom út á ensku fyrir nokkrum árum hjá hinu virta forlagi Oxford University Press. Í anda Fyrsta málfræðingsins og með gagnrýninni notkun á kenningum nútímamálvísinda hafa Kristján Árnason og samstarfsmenn hans í Háskóla Íslands lagt traustan grunn að þeim mikla vexti sem er í íslenskri málfræði innanlands og á alþjóðavettvangi.
Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is