* Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur náði ekki að komast í gegnum niðurskurðinn á Belgian Knockout-mótinu í Antwerpen í gær en það er liður í Evrópumótaröðinni. Birgir lék á 72 höggum í fyrradag og á 73 höggum í gær og var samtals á þremur höggum yfir pari vallarins. Hann hafnaði í 86.-92. sæti en hefði þurft að leika á einu höggi yfir pari til að komast áfram.
*Það ríkir enn óvissa með þátttöku Romelu Lukaku , framherja Manchester United, í bikarúrslitaleiknum gegn Chelsea á Wembley í dag. Lukaku verður prófaður í fyrramálið en þar verður látið á það reyna hvort hann sé klár í slaginn að mæta sínum gömlu félögum en Belginn stóri og stæðilegi hefur verið að glíma við meiðsli í ökkla frá því hann meiddist í leiknum gegn Arsenal fyrir hálfum mánuði.
* Steve McClaren var í gær ráðinn knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins QPR í stað Ian Holloway sem var rekinn í síðustu viku.
* Björk Gunnarsdóttir og Erna Freydís Traustadóttir , körfuknattleikskonur úr Njarðvík, eru búnar að semja við Breiðablik um að leika með Kópavogsliðinu á næsta keppnistímabili. Björk, sem er 19 ára gömul, spilaði næstmest allra í Njarðvíkurliðinu í Dominos-deild kvenna í vetur, tæpar 35 mínútur að meðaltali í leik, og átti flestar stoðsendingar, eða 4,6 að meðaltali í leik. Erna er 18 ára og lék um sextán mínútur að meðaltali í leikjum Njarðvíkurliðsins.