Siglufjörður Þjóðlagasetur sr. Bjarna.
Siglufjörður Þjóðlagasetur sr. Bjarna.
Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands og 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar verður ný sýning opnuð í Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar á morgun, sunnudag, kl. 13.30.

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands og 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar verður ný sýning opnuð í Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar á morgun, sunnudag, kl. 13.30.

„Sýningin nefnist Leið ég yfir lönd og sæ og er kjarni hennar nýjar myndbandsupptökur með tveimur einstökum kvæðakonum, þeim Hildigunni Valdimarsdóttur og Kristrúnu Matthíasdóttur,“ segir í tilkynningu. Þar kemur fram að Hildigunnur (1930-2017) ólst upp í Vopnafirði. „Móðir hennar var skáldkonan Erla og bróðir hennar var Þorsteinn Valdimarsson skáld. Hildigunnur lærði allt sem móðir þeirra söng fyrir börn sín. Hildigunnur kunni gríðarlega mörg kvæði, þjóðlög, þulur og ekki síst danskvæði, sem sungin voru á dansleikjum í heimahúsum í Vopnafirði um aldamótin 1900. Samtals eru lögin sem Hildigunnur syngur fyrir Þjóðlagasetrið um 100 talsins.

Kristrún (1923-2011) var frá Fossi í Hrunamannahreppi. Hún var systir Haraldar Matthíassonar menntaskólakennara á Laugarvatni og ferðafrömuðar. Þau systkinin kunnu ógrynni af vísum og lögum sem þau lærðu í æsku og varðveitast nú í upptökum Þjóðlagaseturs. Kristrún syngur hátt í 50 lög, einkum rímnalög og eftirhermur. Upptökurnar með Hildigunni og Kristrúnu eru einstök heimild um íslenska menningu í upphafi 20. aldar, ekki síst um þátt íslenskra kvenna til varðveislu íslenskra þjóðlaga.“

Upptökurnar gerðu Gunnsteinn Ólafsson og Dúi Landmark. Sýningin stendur til 31. ágúst.