Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur fór illa að ráði sínu á tveimur síðustu holunum á Kingsmill-meistaramótinu í Williamsburg í Bandaríkjunum í gær, þegar allt stefndi í að hún kæmist örugglega í gegnum niðurskurðinn. Mótið er liður í LPGA-mótaröðinni.
Allt stefndi í að Ólafía myndi sigla örugglega áfram í gegnum niðurskurðinn því eftir 16 holur af 18 var hún á þremur höggum undir pari og hafði fengið þrettán pör og þrjá fugla á hringnum.
En á tveimur síðustu holunum, sem báðar voru par 4, fór allt á versta veg. Ólafía fékk skramba á 17. holu, lék hana á sex höggum, og skolla á síðustu holunni sem hún lék á fimm höggum. Þar með var hún komin niður á parið samanlagt, og dottin einu höggi niður fyrir niðurskurðarlínuna.
Ólafía var framarlega í rásröðinni og þurfti því að bíða fram á kvöld eftir því hvort hún kæmist áfram eða ekki. Þegar Morgunblaðið fór í prentun á tólfta tímanum í gærkvöld áttu enn þó nokkrir keppendur eftir að ljúka hringnum og óvíst var hvort niðurskurðarlínan myndi enda á einu höggi undir pari eða á parinu. Niðurstöðuna í því má sjá á mbl.is/sport. vs@mbl.is