Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Eftir Einar S. Hálfdánarson: "Á minna en áratug hefur Reykjavíkurborg tekið tæpar sextán þúsund milljónir að láni umfram það sem hún hefur greitt."

Borgin sinnir ekki grunnskyldum sínum gagnvart öldruðum, viðhaldi gatna eða lóðaframboði. Börnin sem ekki fá pláss á leikskóla eru talin, ekki í hundruðum, heldur þúsundum! Nú er loforðið að nota hundrað þúsund milljónir í fjárfestingu vegna borgarlínu. Einnig liggur fyrir plan um að henda fimmtíu þúsund milljóna mannvirki, flugvellinum í Reykjavík, sem hægt væri að nýta miklu betur en nú er gert til tekjuöflunar til hagsbóta fyrir borgarbúa. Hvergi á byggðu bóli dytti mönnum í hug að henda rándýrum, fullbúnum samgöngumannvirkjum, svo sem járnbrautarstöðvum, til að gera í þeirra stað draumsýn um Feneyjar norðursins að veruleika.

Hagstjórn vinstrimanna

Viðtekin aðferð hvað fjárfestingar varðar er að fresta þeim jafn lengi og unnt er til að spara og forðast dýrar lántökur. Hér ræða menn í fullri alvöru um að flýta uppbyggingu borgarlínu. Með þessu á m.a. að minnka útblástur, svifryk o.s.frv. Hefur enginn heyrt um ódýr úrræði, svo sem takmörkun á notkun nagladekkja, götuþvott, nú eða þá rafmagnsbíla? Og gera a.m.k. tilraun til að standa sig í grunnþjónustunni.

Froðufærslur í bókhaldið

Fyrir hrun græddu bankarnir sem aldrei fyrr. Fram á síðasta dag. Skýringin fólst í froðu. Verðlausar eignir voru blásnar upp. Fjölmiðlarnir spiluðu með. Engin gagnrýni fyrr en eftir að spilaborgin hrundi. Hefur enginn dregið lærdóm af bankahruninu? Engar minnstu áhyggjur?

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2017 sýnir jákvæða niðurstöðu. Ef að er gáð er ein helsta skýringin fólgin í svokölluðu endurmati fasteigna. Matsbreyting fjárfestingaeigna nemur tæpum ellefu þúsund milljónum króna. Til hvers er þessi froðufærsla? Ætlar borgin að selja eignirnar? Voru þær keyptar í hagnaðarskyni? Af hverju ekki að endurmeta göturnar? Þá væri nú virkilega hægt að vera drýgindalegur.

Skuldasöfnun Reykjavíkurborgar

Á minna en áratug hefur Reykjavíkurborg tekið tæpar sextán þúsund milljónir að láni umfram það sem hún hefur greitt. Segi og skrifa sextán þúsund milljónir! Þessar lántökur eru í mesta góðæri Íslandssögunnar þegar borgin ætti að leggja til hliðar. Í staðinn er skatttekjum framtíðarinnar sóað í gæluverkefni. Barnabörnin borga. Það er ekki nema von að borgarstjóri brosi breitt í auglýsingunum. Eða er Dagur kannski að hlæja að okkur?

Höfundur er varamaður í Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar.

Höf.: Einar S. Hálfdánarson