Karað Bryndís Karlsdóttir heldur nýbornu lambi á meðan ærin karar það. Hún á von á þremur til viðbótar.
Karað Bryndís Karlsdóttir heldur nýbornu lambi á meðan ærin karar það. Hún á von á þremur til viðbótar. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Sauðburðurinn hefur gengið þokkalega en hefði líka mátt ganga betur. Það er svolítið af dauðum lömbum,“ segir Sigríður Bryndís Karlsdóttir, bóndi á Geirmundarstöðum á Skarðsströnd í Dölum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Sauðburðurinn hefur gengið þokkalega en hefði líka mátt ganga betur. Það er svolítið af dauðum lömbum,“ segir Sigríður Bryndís Karlsdóttir, bóndi á Geirmundarstöðum á Skarðsströnd í Dölum. Hún bætir því við að frjósemi sé góð þetta árið og þegar svo hátti til sé algengara að lömb drepist.

Sauðburður er meira en hálfnaður á Geirmundarstöðum. Í fyrradag voru um 150 ær óbornar.

Mikið álag er á sauðfjárbændum á sauðburði og sést það á Bryndísi og Þórði Baldurssyni, manni hennar, og systur hennar sem er þeim til aðstoðar við burðarhjálpina, þegar þau brugðu sér heim til að fá sér kaffisopa. „Það er að teygjast aðeins á manni,“ segir Bryndís.

Þau hjónin skipta vaktinni á nóttunni á milli sín og eru þar einnig mestallan daginn. „Við erum þrjú enda þarf að hugsa um þetta allan sólarhringinn,“ segir Bryndís.

Veðrið í maí hefur ekki hjálpað, skipst hefur á kuldi og rigningar. Það vill til að þau hafa gott húspláss og geta látið allar ærnar bera inni og þurftu ekki að hleypa lambfénu út þegar veðrið var sem verst.

Unga fólkið flýr eins og fætur toga

Ekki líst bændunum á Geirmundarstöðum vel á stöðu sauðfjárræktarinnar í landinu vegna verðfalls á afurðum þeirra. „Staðan hlýtur að vera hrikaleg hjá ungu fólki sem nýlega er búið að skuldsetja sig með kaupum á jörðum og búum,“ segir Þórður.

Hann segir að þeir fáu sauðfjárbændur sem eftir eru á Skarðsströnd haldi sjó. „Ætli meðalaldurinn sé ekki um 60 ár. Við bíðum í 10 ár og þá leggst þetta af,“ segir Þórður og bætir aðspurður við um áhuga unga fólksins á að taka við: „Það flýr eins og fætur toga.“