Danska þingið hefur samþykkt ný lög sem banna fólki að nota andlitsblæjur á almannafæri. Fara þeir þannig að fordæmi Frakka og annarra Evrópuríkja sem ekki vilja að konur klæðist búrkum sem hylja um leið andlit viðkomandi.
Søren Pape Poulsen, dómsmálaráðherra Danmerkur, segir lögreglu ekki munu skipa konum að taka niður andlitsblæju sína fari þær þannig klæddar út úr húsi. Þess í stað verða þær sektaðar og sagt að halda heim á leið. Sektin fyrir að klæðast búrku sem hylur andlit að hluta eða öllu leyti verður á bilinu 1.000 danskar krónur, um 16 þúsund íslenskar krónur, fyrir fyrsta brot en 10.000 danskar krónur, um 160.000 íslenskar krónur, fyrir fjögur brot eða fleiri.
Lögin, sem samþykkt voru á þinginu með 75 atkvæðum gegn 30, taka gildi 1. ágúst nk.