Ársfundur Frjálsa lífeyrissjóðsins, sem haldinn var á miðvikudag, stóð yfir í tæpar sjö klukkustundir. Voru tæplega 200 sjóðfélagar mættir með umboð frá nokkur hundruð öðrum sjóðfélögum.
Fráfarandi stjórnarformaður, Ásgeir Thoroddsen, fór yfir starfsemi sjóðsins en þar var fyrirferðarmest umfjöllun um fjárfestingu sjóðsins í United Silicon í Helguvík. Sjóðurinn hefur afskrifað um 1,2 milljarða fjárfestingu sína í verkefninu.
Að lokinni ræðu formanns fór Hjörleifur Arnar Waagfjörð frá Arion banka yfir ferlið að baki fjárfestingunni og einnig Stefán Árni Auðólfsson lögmaður, sem sjóðurinn hafði fengið til þess að gera úttekt á málinu og stöðu sjóðsins gagnvart þeim sem að verkefninu komu. Spunnust langar umræður um fjárfestinguna í kjölfarið.
Á fundinum var einnig kosið um tvö stjórnarsæti af sjö og höfðu fimm frambjóðendur boðið sig fram. Flest atkvæði hlaut Anna Sigríður Halldórsdóttir, eða 29,9%. Hún hefur átt sæti í stjórn sjóðsins frá 2013. Næstflest atkvæði hlaut svo Halldór Friðrik Þorsteinsson, eða 27,4%, og kemur hann nýr inn í stjórnina. Í varastjórn hlutu kosningu þeir Hrafn Árnason með 37% og Sigurður H. Ingimarsson með 36%.
Fyrir fundinum lá tillaga stjórnar um að allir stjórnarmenn skyldu kosnir af sjóðfélögum en fram til þessa hefur Arion banki, rekstraraðili sjóðsins, tilnefnt þrjá af sjö. Sú tillaga hlaut brautargengi að undangengnum ákveðnum breytingum.
Tillaga þess efnis að nafn Arion banka yrði fellt út úr samþykktum þar sem fjallað er um rekstraraðila sjóðsins hlaut ekki brautargengi.