Í Kaplakrika
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Það var ljóst frá fyrstu mínútu að leikur FH og KA í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karl í knattspyrnu í gær yrði hreint út sagt leiðinlegur. Gestirnir frá Akureyri virtust ekki hafa mikla trú á verkefninu á meðan heimamenn neituðu einfaldlega að skipta úr fyrsta gírnum yfir í annan.
Elfar Árni, Guðmann Þórisson og Hallgrímur Jónasson voru allir fjarverandi í liði KA og vissulega munar um minna. Halldór Orri Björnsson skoraði eina mark leiksins á 19. mínútu eftir að varnarmenn KA voru of lengi að stíga út á móti honum. Í raun hefði mátt flauta leikinn af þarna, enda fátt markvert sem gerðist eftir þetta.
Í bikarleikjum mæta menn ofast með hausinn uppi og gefa sig alla í leikinn en þannig var það ekki í Hafnarfirði. Það var lítið um baráttu á vellinum og hvorugt lið sýndi það í raun að það vildi vinna leikinn. Það sem stóð upp úr var frammistaða Edigerson Gomes, varnarmanns FH, sem var eins og versta hrekkjusvínið á leikvellinum í gamla daga. Hann hreinlega hló að öðrum leikmönnum vallarins og ef einhver gerði sig líklegan til þess að fara framhjá honum gaf hann aðeins í og hirti boltann af honum. Frábær leikmaður sem gæti reynst örlagavaldur fyrir Hafnfirðinga í toppbaráttunni í sumar.
Hjá KA er sóknarleikur liðsins mesta áhyggjuefnið. Archi og Ólafur Aron sáu um að verja vörnina og sinntu því hlutverki ágætlega en þetta eru ekki leikmennirnir sem þú vilt hafa á boltanum, þegar þú ert á leið í hraða skyndisókn. Maður hlýtur að spyrja sig af hverju Hallgrímur Mar, besti leikmaður KA, fær ekki tækifæri í holunni. Hann er mest skapandi maðurinn í liðinu og liðið þarf mörk.
Víkingar stálheppnir gegn Kára
Víkingur Reykjavík lenti í miklu basli með C-deildarlið Kára á Akranesi í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í gær.Örvar Eggertsson kom gestunum yfir áður en Ragnar Már Lárusson jafnaði metin fyrir Kára. Páll Sindri Einarsson og Andri Júlíusson bættu svo við sínu markinu hvor fyrir Kára og staðan 3:1 í hálfleik. Davíð Örn Atlason og Rick Ten Voorde skoruðu hins vegar fyrir Víkinga í síðari hálfleik og staðan eftir venjulegan leiktíma því 3:3. Það var svo Alex Freyr Hilmarsson sem reyndist hetja Víkinga þegar hann skoraði sigurmark leiksins í framlengingu og Víkingar fara því áfram í átta liða úrslitin eftir 4:3 sigur.