Auk þess að berjast fyrir bættum kjörum lætur Sjómannasambandið sig öryggismal stéttarinnar miklu varða. Valmundur segir það áhyggjuefni að Landhelgisgæslan sé svo fjársvelt að illgerlegt sé að manna aukavaktir á björgunarþyrlum.
„Það gerðist fyrir skemmstu að ekki var hægt að nota björgunarþyrlu vegna slyss sem varð í Þingvallavatni því reglur um hvíldartíma þýddu að þær áhafnir sem voru til taks máttu ekki fara í flug,“ segir hann. „Búið er að álykta um þessi mál fram og til baka og þvers og kruss og sama við hvern er talað í stjórnsýslunni; þar lofar fólk öllu fögru, en síðan er ekki neitt gert. Ég vil ekki trúa því að sem siglingaþjóð, og með svona flottan flota, getum við ekki gert mun betur. Okkar krafa er einföld; að hafa alltaf tvær þyrlur, að lágmarki, til taks allt árið um kring.“