Ragnhildur Þrastardóttir
ragnhildur@mbl.is
Í útibúi Póstsins í Pósthússtræti var mikið um að vera í gær. Gestagangurinn var stöðugur og borð hlaðið veitingum svignaði undan álaginu. Það má segja að sannkölluð kveðjuveisla hafi staðið þar allan daginn, kveðjuveisla til heiðurs Eddu Egilsdóttur, sem hefur unnið í 42 ár hjá Póstinum. Í gær vann hún sinn síðasta vinnudag en hún fer nú á eftirlaun eftir langt og farsælt starf.
Mikilvægt að það sé gaman
,,Ég hefði nú ekki verið hérna allan þennan tíma ef mér þætti þetta ekki skemmtilegt,“ segir Edda þegar hún er spurð út í starfið. ,,Það sem gefur vinnu gildi er að vinna með góðum félögum og að finnast gaman að því sem maður er að gera.“ Edda leggur áherslu á það hversu gaman henni þykir að vinna vinnuna sína og segist hafa gaman af öllu við starfið hjá Póstinum.,,Mér leiðist ekki alla jafna. Að hitta fastakúnnana sem koma hingað alltaf dag eftir dag í hvaða veðri sem er finnst mér afar gaman. Sumir hafa komið hingað ansi lengi, jafnvel lengur en ég sjálf.“
Vinsæl á meðal viðskiptavina
Edda þarf að taka hlé á máli sínu nokkrum sinnum til að taka á móti viðskiptavinum sem bera henni þakkir fyrir vel unnin störf. ,,Ég á yndislega viðskiptavini sem mér þykir gífurlega vænt um og ég finn að þeim þykir vænt um mig líka,“ segir Edda.Eins og gefur að skilja hefur póstþjónustan tekið stakkaskiptum síðan Edda hóf störf. ,,Bréfapósturinn hefur minnkað gífurlega. Í dag verslar fólk mikið á netinu svo það kemur mikið af pökkum og það þarf að sinna afhendingum á þeim. Fjölbreytnin í starfinu hefur einnig minnkað umtalsvert. Pósturinn var áður með alla svona greiðsluseðla sem bankarnir sjá um núna og pósturinn sá einnig um símareikningana og slíkt.“
Edda er Súgfirðingur en kom til Reykjavíkur með vonir um atvinnu. ,,Mig vantaði vinnu hérna í bænum og þá var nú kannski ekki hlaupið í vinnu. Frænka mín benti mér á að athuga hvort það væri hægt að fá vinnu á pósthúsinu. Ég hafði þá samband við hann Axel vin minn sem er ekki fyrir svo löngu látinn. Hann benti mér á að fara í póstskólann, sem ég gerði og síðan hafa þau ekki losnað við mig,“ segir Edda og hlær.