— Morgunblaðið/Golli
Hátíðahöldin í kringum sjómannadaginn sýna vel hvað sjávarútvegurinn leikur enn mikilvægt hlutverk í íslensku samfélagi.

Hátíðahöldin í kringum sjómannadaginn sýna vel hvað sjávarútvegurinn leikur enn mikilvægt hlutverk í íslensku samfélagi. Atvinnulífið er orðið fjölbreyttara en það var áður, og hagur þjóðarinnar stendur ekki og fellur með því hvernig fiskast, en eftir sem áður er greinin einn af burðarstólpunum, skapar miklar útflutningstekjur og veitir fjölda fólks störf.

Kannski hefur aldrei verið mikilvægara en nú að taka þátt í sjómannadeginum og fara með börnin niður að bryggju til að skoða bátana, virða fyrir sér furðufiska og sjá með eigin augum þegar hetjur hafsins reyna með sér í reiptogi, kappróðri eða koddaslag.

Samfélagið breytist svo ört að ef ekki er að gáð gæti unga fólkið misst tenginguna við atvinnugreinina, og það merkilega fólk sem vinnur þar krefjandi störf, bæði á sjó og í landi, og reynir þrotlaust að skapa æ verðmætari vörur úr takmörkuðum auðlindum hafsins.

Sjómannadagurinn er dagur til að staldra við, sýna greininni þann sóma sem hún á skilið, og minnast þess að á einn eða annan hátt eru Íslendingar allir sjómenn inni við beinið.