Anna Margrét Björnsson
amb@mbl.is Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa raðgreint erfðamengi úr tönnum 25 einstaklinga frá landnámsöld. Niðurstöðurnar, sem birtast í vísindatímaritinu Science í dag, setja upphaf Íslandsbyggðar í nýtt ljós.
Með samanburði við arfgerðir úr núlifandi íbúum Íslands, Bretlandseyja, Skandinavíu og annarra Evrópulanda var í fyrsta sinn hægt að meta beint uppruna einstaklinga frá landnámsöld. Erfðaefni var raðgreint úr 27 líkamsleifum sem geymdar eru á Þjóðminjasafni Íslands, þar af 25 frá fyrstu kynslóðum Íslandsbyggðar (870 til 1100). Niðurstöðurnar sýna að í landnámshópnum voru sumir af norrænum uppruna, aðrir af keltneskum og enn aðrir af blönduðum uppruna. Líklegt er að slík blöndun hafi átt sér stað á Bretlandseyjum. Alls var norrænn uppruni einstaklinganna frá landnámsöld um 57%, en er 70% í núlifandi Íslendingum.
„Við höfum lengi vitað að Íslendingar rekja ættir sínar bæði til Norðmanna og Kelta, en greining á erfðaefni úr líkamsleifum frá landnámsöld gerir okkur kleift að sjá hvernig fyrstu íbúar landsins voru áður en og á meðan þessi blöndun átti sér stað,“ segja Sunna Ebenesersdóttir og Agnar Helgason, líffræðilegir mannfræðingar hjá Íslenskri erfðagreiningu og höfundar greinarinnar. „Nú þurfum við ekki lengur að áætla á grundvelli arfgerða úr núlifandi fólki. Þetta er nánast eins og að hafa aðgang að tímavél. Núna getum við rannsakað fólkið sjálft sem tók þátt í landnámi Íslands.“
Rannsóknin sýnir skýrt að umtalsverður hluti af þeim erfðabreytileika sem kom til Íslands með landnámsfólki hefur tapast á undanförnum 1.100 árum. Við þetta hafa Íslendingar orðið erfðafræðilega einsleitari og af þeim sökum ólíkir upprunaþjóðunum frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. „Mannfæð og endurtekin mannfellisár vegna hungurs og faraldra hafa leitt til þess að Íslendingar hafa fjarlægst upprunaþjóðir sínar í Skandinavíu og á Bretlandseyjum, og um leið orðið erfðafræðilega einsleitari,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og einn höfunda greinarinnar. „Þetta hefur gert leit okkar að erfðafræðilegum orsakaþáttum sjúkdóma á Íslandi aðeins auðveldari.“
Spurður um hvenær þessar rannsóknir hófust segir Kári að Agnar sé algjörlega ábyrgur fyrir því að færa fyrirtækið inn á þetta svið. Agnar segir að þau hafi birt rannsóknir við og við, þá fyrstu árið 2000 og svo til dæmis grein sem birtist árið 2011 þar sem DNA landnámsfólks var greint. „En þá vorum við bara að greina erfðaefni hvatbera sem var svona þúsund kirna bútur. Nú erum við að greina allt erfðamengið, eða um þrjá milljarða kirna sem er miklu meira og það er sú bylting sem er afurð af byltingu í raðgreiningartækni. Og það hefur opnað nýjan heim.“
Nánar má lesa um efnið á mbl.is.