* Jonathan Hendrickx , belgíski knattspyrnumaðurinn hjá Breiðabliki, er á góðum batavegi. Hann hneig niður í bikarleik liðsins gegn KR í fyrrakvöld og var fluttur á sjúkrahús. Að sögn talsmanns Breiðabliks í gær kom ekkert alvarlegt í ljós og Hendrickx var sagður allur að hressast.
* Sindri Snær Jensson markvörður KR fór af velli í lok fyrri hálfleiks í sama leik þegar hann lenti illa. Þar fór líka betur en á horfðist, Sindri tognaði á ökkla en er óbrotinn.
*Handknattleiksmaðurinn Leonharð Þorgeir Harðarson er kominn til Gróttu frá Haukum. Hann er 22 ára og leikur bæði sem hornamaður og skytta hægra megin og lék áður með Gróttu tímabilið 2016-17.
*Frönsk handknattleiksona, Britney Cots, er komin til liðs við FH og leikur með liðinu í 1. deildinni næsta vetur. Hún er tvítug, fjölhæfur leikmaður, og kemur frá Antibes í Frakklandi.
* Friðrik Hólm Jónsson og Grétar Þór Eyþórsson hafa skrifað undir nýja samning við Íslandsmeistara ÍBV í handknattleik. Þess utan bættist Hákon Daði Styrmisson í hópinn. ÍBV hefur þar með þrjá menn til þess að leika í vinstra horni á næstu leiktíð.