Heilinn er eitt merkilegasta líffæri mannslíkamans, hann stjórnar allri starfsemi líkamans, sem reiðir sig á að heilinn sé í lagi. Heilahristingur og önnur höfuðmeiðsli eru algengari og alvarlegri en margir gera sér grein fyrir. Ef heilinn verður fyrir hnjaski og grunur leikur á að einhver hafi fengið heilahristing er mikilvægt að bregðast rétt við og fara hægt af stað aftur.
Nokkuð algengt er að íþróttafólk fái höfuðhögg og þurfi í kjölfarið að hætta í sinni íþrótt vegna langvarandi afleiðinga höggsins. Að undanförnu hefur íslenskt íþróttafólk stigið fram í auknum mæli og talað um meiðsli sín og afleiðingar þeirra. Afleiðingar sem oft á tíðum hefði verið hægt að koma í veg fyrir með réttri meðhöndlun.
Höfuðhögg geta verið afar mismunandi og afleiðingar þeirra líka. Þau geta valdið blæðingum eða bólgu í ysta lagi höfuðs. Slíkt sést oftast með berum augum og því auðvelt að greina. Höfuðhögg geta líka haft áhrif á höfuðkúpuna og jafnvel brotið hana. Slíkt er líka tiltölulega auðvelt að greina með hjálp sneiðmynda eða segulómunar. Þannig er einnig hægt að greina blæðingar og bólgur við heila, en heilahristing er hins vegar erfitt að greina þar sem afleiðingar hans sjást yfirleitt ekki á myndum.
Heilahristingur er þegar tímabundin truflun verður á starfsemi heilans vegna áverka. Hann getur orðið við beint högg á höfuðið eða við óbeint högg sem verður til þess að heilinn hreyfist inni í höfuðkúpunni.
Einkenni heilahristings geta verið að viðkomandi vankast, er með höfuðverk, ógleði, uppköst, svima, sjóntruflanir, breyting verður á skapi og fleira. Það er mismunandi hvaða einkennum menn finna fyrir og hvenær. Sumir finna strax fyrir einkennum en aðrir aðeins seinna og því er mikilvægt að fylgjast vel með þeim sem fær högg.
Fái einstaklingur höfuðhögg og grunur leikur á heilahristingi er æskilegt að lágmarka hættuna á öðru höggi, svo sem með því að taka viðkomandi út af vellinum í leik eða láta hann hvíla á æfingu, þar sem annað högg getur valdið svokölluðu second-impact syndrome (SIS). Þá kemur mikill bjúgur í heilann og viðkomandi getur orðið fyrir alvarlegum heilaskaða og áverkum sem geta varað til æviloka. Seinna höggið þarf ekki að vera mikið eða alvarlegt, bara að það verði meiri truflun á starfsemi heilans. SIS getur leitt til örorku og til eru tilvik þar sem slíkt hefur leitt til dauða.
Flestir jafna sig á heilahristingi á fyrstu 10 dögunum eftir, en örfáir fá það sem kallað er heilahristingsheilkenni, eða postconcussional syndrome. Þá heldur fólk áfram að vera með einkenni heilahristings svo sem höfuðverk, en getur einnig upplifað hljóð- og/eða ljósfælni, kvíða og depurð. Þetta getur haft mikil áhrif á daglegt líf og erfitt getur verið fyrir viðkomandi að ganga í skóla eða sinna vinnu.
Til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar höfuðhögga og heilahristings skiptir miklu máli að þjálfarar, sjúkraþjálfarar og starfsfólk íþróttafélaga viti hvernig eigi að bregðast við. Að verkferlar séu skýrir og ekki sé tekin áhætta með framtíð leikmanna. Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur boðið upp á fræðslu fyrir þessa aðila auk þess sem slík fræðsla er orðin hluti af þjálfaranámi í einstaka íþróttagreinum. Betur má þó ef duga skal. Fræðslan þarf að vera meiri og allir verða að láta sig málið varða.
Þó svo að einstaklingurinn hljóti alltaf að bera ábyrgð á sjálfum sér og foreldrar á börnum sínum er ábyrgð þeirra sem þjálfa og standa að íþróttaæfingum og keppni mikil. Þjálfarar, sjúkraþjálfarar og starfsfólk íþróttafélaga eru ekki bara fyrirmyndir heldur einnig fyrirliðar félaganna. Þeir eiga að sýna gott fordæmi og vera vel upplýstir og undirbúnir ef eitthvað kemur upp á. Þeir þurfa ekki að finna upp hjólið sjálfir þar sem nóg er af upplýsingum um höfuðhögg og heilahristing og viðbrögð við þeim hjá sérfræðingum sem gjarnan vilja deila upplýsingunum og eru einnig á netinu. Þessar upplýsingar ættu að vera aðgengilegar á heimasíðum allra íþróttafélaga, auk þess sem tryggja þyrfti að verkferlar væru til um það hvernig bregðast skuli við áverkum leikmanna.
Fái leikmaður höfuðhögg á æfingu eða í leik ber að bregðast rétt við og styðja leikmanninn til að jafna sig og koma aftur heill til leiks þegar hann er tilbúinn. Ábyrgðin er þjálfarans, sjúkraþjálfarans, liðsfélaganna, dómara og áhorfenda. Ábyrgðin er okkar – öxlum hana.
Höfundur er nemandi í Langholtsskóla og leikmaður 4. flokks Vals í handbolta. 03salka@langholtsskoli.is