Sveigjanleiki „Bæði veiðarnar, gengið, verð á erlendum mörkuðum og eftirspurn geta sveiflast og aðdáunarvert hvernig greininni tekst að aðlgast breyttum skilyrðum hverju sinni,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.
Sveigjanleiki „Bæði veiðarnar, gengið, verð á erlendum mörkuðum og eftirspurn geta sveiflast og aðdáunarvert hvernig greininni tekst að aðlgast breyttum skilyrðum hverju sinni,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjávarútvegsráðherra segir atvinnugreinina hafa sýnt mikla aðlögunarhæfni. Dugnaður, þekking og eljusemi skýra þá miklu verðmætasköpun sem á sér stað í greininni í dag, og nýtur öll þjóðin góðs af í formi bættra lífsgæða í landinu.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það munaði minnstu að Kristján Þór Júlíusson yrði skipstjóri en örlögin beindu honum í staðinn út í stjórnmálin. Hann tók fyrst sæti á Alþingi árið 2007, var heilbrigðisráðherra í tæp fjögur ár, síðan menntamálaráðherra um stutt skeið og loks síðla árs 2017 tók hann við lyklunum að sjávarútvegsráðuneytinu.

Kristján á ljúfar og kærar minningar frá sjómannadeginum á Dalvík þar sem hann ólst upp og bjó langt fram á fullorðinsár. „Það er til mynd á heimilinu af foreldrum mínum barnungum þar sem þau standa og fylgjast með móðurafa mínum flytja hátíðarræðu á sjómannadeginum í Dalvík, löngu áður en þau uxu úr grasi og tóku saman,“ segir Kristján sem er kominn af sjómönnum í báðar ættir.

Aðspurður hvort hann hafi látið að sér kveða í þeim aflraunum sem oft eru hluti af hátíðahöldum dagsins kemur í ljós að Kristján var ekki afleitur róðrarmaður. „Ég afrekaði það eitt skiptið að vera í vinningsliðinu í róðrarkeppni, og þótti sú keppi alltaf mikill viðburður í bænum.“

Vöxtur greinarinnar er mikið afrek

Kristjáni þykir gott að nota tækifærið á sjómannadaginn til að hugleiða stöðu sjávarútvegsins og það hlutverk sem atvinnugreinin hefur leikið í sögu þjóðarinnar. „Það er raunar stórmerkilegt að yfir 95% af afurðum sjávarútvegsins eru seldar á erlendum mörkuðum, og hefur verið reiknað út að ígildi 20 milljóna máltíða séu framleidd af íslenskum sjávarútvegi á degi hverjum. Umsvif og vöxtur greinarinnar eru ekki lítið afrek og að koma vörunum öllum hratt og vel á markað hefur útheimt mikla þekkingu, dugnað og eljusemi.“

Aðstæður hafa á margan hátt verið hagfelldar sjávarútveginum á undanförnum árum, en greinin glímir eftir sem áður við ýmsar áskoranir. Sjávarútvegurinn er háður náttúruöflunum og enginn getur stýrt því hversu vel fiskast, eða hversu sterkir stofnarnir í hafinu eru, en svo eru aðrir þættir sem má reyna að hafa áhrif á, s.s. þeir skattar og gjöld sem greinin þarf að greiða, og sveiflur í gengi gjaldmiðilsins:

„Bæði veiðarnar, gengið, verð á erlendum mörkuðum og eftirspurn geta sveiflast og aðdáunarvert hvernig greininni tekst að aðlgast breyttum skilyrðum hverju sinni,“ segir Kristján. „Stundum er þróunin jákvæð og rennir styrkari stoðum undir greinina eins og við höfum séð á árunum eftir hrun en á öðrum tímabilum er þróunin í hina áttina. Stóru áskoranirnar sem greinin glímir við eiga sér yfirleitt tvær hliðar; bæði kosti og galla.“

Aðspurður hvort ekki sé eitthvað sem megi til bragðs taka núna þegar mörgum þykir krónan orðin úr hófi sterk og farin að þrengja að sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum segir Kristján hollt að reyna að skoða þróunina og framtíðarhorfurnar til lengri tíma. „Ef að er gáð er það að miklu leyti krónunni að þakka og því að þjóðin skuli eiga sjálfstæðan gjaldmiðil að tekist hefur að gera sjávarútveginn að eins sterkri atvinnugrein og raun ber vitni. Krónan hefur greinilega ákveðna galla og veldur í dag útgerðum og sjómönnum búsifjum en henni fylgja líka ótvíræðir kostir til lengri tíma.“