Atli Már Gylfason, fyrrverandi blaðamaður á Stundinni, var sýknaður af kröfu Guðmundar Spartakusar Ómarssonar um skaðabætur í meiðyrðamáli í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Ástríður Grímsdóttir kvað upp dóminn. Guðmundi Spartakusi var gert að greiða 600 þúsund krónur í sakarkostnað.
Í ítarlegri umfjöllun Atla Más um hvarf Friðriks Kristjánssonar í Suður-Ameríku árið 2013 kafaði hann ofan í fíkniefnaheiminn á landamærum Brasilíu og Paragvæ og bendlaði þá Sverri Þór Gunnarsson og Guðmund Spartakus við hvarf Friðriks. RÚV og Hringbraut fjölluðu einnig um málið á sínum tíma og vitnuðu m.a. í umfjöllun Stundarinnar, en Guðmundur Spartakus fór einnig í meiðyrðamál við þá fjölmiðla.
RÚV samdi við Guðmund Spartakus og greiddi honum 2,5 milljónir króna í sakarkostnað og miskabætur.
Sigmundur Ernir Rúnarsson hjá Hringbraut var á hinn bóginn sýknaður í Hæstarétti fyrr í mánuðinum.