Skynsemistefnan hlaut afgerandi hljómgrunn í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Um land allt náðu framboð Miðflokksins skínandi árangri, og jafnvel þar sem ekki náðust kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnir hefur byggst upp sterkt samstarf...

Skynsemistefnan hlaut afgerandi hljómgrunn í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Um land allt náðu framboð Miðflokksins skínandi árangri, og jafnvel þar sem ekki náðust kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnir hefur byggst upp sterkt samstarf framfarasinna.

Eins og skýrt hefur komið fram í fréttum og umræðuþáttum síðustu daga eru stjórnmálaskýrendur almennt sammála um að Miðflokkurinn hafi verið sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna. Það er enda full ástæða til, þar sem enginn nýstofnaður flokkur hefur náð jafn góðum árangri á landsvísu í fyrstu sveitarstjórnarkosningum sínum. Flokkurinn hlaut níu sveitarstjórnarfulltrúa, t.d. umtalsvert fleiri en flokkur leiðandi flokksins í ríkisstjórn. Á nokkrum stöðum hefðu örfá atkvæði í viðbót skilað viðbótarfulltrúum. Og eru þá aðeins talin M-lista framboðin tólf en auk þeirra átti Miðflokksfólk aðild að nokkrum sameiginlegum framboðum sem einnig náðu góðum árangri.

Það er mjög ánægjulegt að sjá að stuðningur við Miðflokkinn á landsvísu festir sig í sessi milli kosninga og tryggir að flokkurinn á nú samtals 16 kjörna fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þessum árangri náði harðduglegt Miðflokksfólk á aðeins 229 dögum frá stofnun flokksins, sem er fordæmalaust á Íslandi.

Nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar geta því að sönnu kallast sigur skynsemisstefnunnar, stefnu sem er byggð á að greina úrlausnarefni samfélagsins, leita bestu og skynsamlegustu lausnanna með því að hlusta á öll sjónarmið og vera opin fyrir tillögum úr öllum áttum og taka ákvörðun byggða á rökum. En að því búnu er mikilvægt að standa svo við og berjast fyrir hinni réttu stefnu. Það er því mikill styrkur fyrir viðkomandi sveitarfélög að fá fulltrúa Miðflokksins inn í sveitarstjórnir, fólk sem mun gera sitt besta næstu fjögur ár til að veita skynsamlegum málum stuðning og framgang en ekki síður veita aðhald þar sem þörf er á.

Það er sérstök ástæða til að þakka öllu því geysiöfluga Miðflokksfólki um allt land sem lagði mikið á sig til að þessi góði árangur yrði að veruleika. Það er einstakt að vinna með svo samhentum og jákvæðum hópi fólks. Hópi sem lætur málefni samfélagsins sig miklu varða og er tilbúið að leggja ómældan tíma og vinnu í að bæta nærsamfélagið sitt á grundvelli sameiginlegrar hugsjónar. Í því birtust stjórnmálin eins og þau gerast best.

Með slíkan hóp fólks innanborðs eru Miðflokknum allir vegir færir. Við lögðum af stað fyrir átta mánuðum með þann einbeitta ásetning að stofna stjórnmálahreyfingu sem léti að sér kveða, berðist fyrir skynsemishyggju og rökhyggju í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálahreyfingu sem teygði sig um Ísland allt og ekki yrði litið fram hjá.

Það markmið hefur þegar náðst. En við erum rétt að byrja. Framundan eru nýir og spennandi tímar.

Höfundur er formaður Miðflokksins.

Höf.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson