[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Forsvarsmenn Coripharma Holding ehf. og Actavis Group PTC ehf., hluta af samstæðu Teva Pharmaceutical Industries Ltd, undirrituðu í gær samkomulag um kaup Coripharma á Actavis ehf.

Sviðsljós

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Forsvarsmenn Coripharma Holding ehf. og Actavis Group PTC ehf., hluta af samstæðu Teva Pharmaceutical Industries Ltd, undirrituðu í gær samkomulag um kaup Coripharma á Actavis ehf.

Coripharma var stofnað af meðal annars fyrrverandi stjórnendum og lykilstarfsmönnum Actavis á Íslandi til þess að undirbúa kaupin, en sá undirbúningur hefur staðið meira og minna allt frá því að tilkynnt var um fyrirhugaða lokun á lyfjaverksmiðjunni fyrir rétt um 2 árum, að sögn Bjarna K. Þorvarðarsonar, forstjóra Coripharma og eins stærsta hluthafans í hinu nýja fyrirtæki. Hann segir að kaupverðið sé trúnaðarmál.

Starfsmenn félagsins eru nú 10, en Bjarni segir að innan þriggja mánaða verði þeir orðnir 30. „Þegar verksmiðja Actavis var í fullum gangi voru um 300 starfsmenn í verksmiðjunni og stoðstörfunum og þar ætlum við að vera tveggja ára,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið í gær.

Með kaupunum eignast Coripharma stærstu lyfjaverksmiðju á Íslandi og skrifstofuhúsnæði á Reykjavíkurvegi 76 ásamt Kársnesbraut 108. Hyggjast forsvarsmenn Coripharma hefja lyfjaframleiðslu í Hafnarfirði á ný og virkja þá miklu þekkingu sem þar hafði byggst upp, allt frá því fyrsti hluti verksmiðjunnar var reistur við Reykjavíkurveg árið 1983, þar til framleiðslu var hætt í fyrra. Teva mun áfram eiga og reka Medis og önnur félög í nafni Actavis á Íslandi og heldur öllum réttindum er lúta að Actavis-nafninu.

Mikill áhugi á endurreisn

„Við erum mjög ánægð með að hafa náð þessu samkomulagi við Teva og geta nú virkjað þann mikla áhuga sem við höfum fundið á að endurreisa fyrri framleiðslu og útflutning lyfja héðan. Í hópi Coripharma eru bæði reyndir fjárfestar og vanir aðilar úr rekstri alþjóðlegra lyfjafyrirtækja og þessarar lyfjaverksmiðju. Samhliða sjálfstæðri lyfjaframleiðslu Coripharma sjáum við jafnframt fram á að njóta góðs af nánu sambýli við önnur lyfjafélög sem eru rekin hér á landi. Þannig stefnum við á kraftmikið og frjótt framleiðslu- og þekkingarsamfélag nokkurra félaga í skyldum rekstri í framtíðinni,“ sagði Bjarni.

Spurður hverjir séu helstu fjárfestar í Coripharma segir Bjarni:

Fjárfestarnir allir íslenskir

„Nýju fjárfestarnir eru allir íslenskir. Stærsti fjárfestirinn er Framtakssjóður í stýringu Íslenskra verðbréfa. Ég er næststærsti fjárfestirinn og VÍS sá þriðji stærsti. Auk þeirra er Hof, félag í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona, fjárfestir í félaginu og tveir fyrrverandi forstjórar Actavis og forvera Actavis, þau Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Ottó Björn Ólafsson, sem var forstjóri Delta á sínum tíma. Þessir fjárfestar hafa bæst við hóp eigenda Coripharma sem samanstóð af þeim sem hafa unnið að framgangi verkefnisins síðastliðin tvö ár,“ segir Bjarni.

Bjarni rifjar upp að tilkynnt var árið 2016 að verksmiðju Actavis yrði lokað og það hafi svo gerst í febrúar í fyrra. „Þegar það gerðist fór hópur manna af stað til þess að kanna hvernig þeir gætu staðið að málum, til þess að tryggja að lyfjaverksmiðjan yrði opnuð sem fyrst aftur. Þar var valinkunnur hópur fjármálamanna sem og fyrrverandi lykilstarfsmenn hjá Actavis, þeir Torfi, Stefán Jökull Sveinsson, Sigurgeir Guðlaugsson, Bolli Thoroddsen og Tryggvi Þorvaldsson, sem allir eru í hópi eigenda,“ sagði Bjarni.

Tilskilin leyfi fyrir árslok

Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Coripharma, Torfi Rafn Halldórsson, segir: „Félagið stefnir á að verksmiðjan verði komin í fullan rekstur á ný innan árs. Vinna við að manna starfsemina og endurnýja öll gæðavottorð verksmiðjunnar er þegar hafin og stefnum við á að öll tilskilin leyfi til alþjóðlegrar lyfjaframleiðslu verði komin fyrir lok ársins. Í upphafi munum við gera samstarfssamninga við lyfjafyrirtæki, um að framleiða lyf undir þeirra merkjum í verktöku. Þegar eru hafnar viðræður við allnokkur alþjóðleg lyfjafyrirtæki, sem hafa sýnt Coripharma mikinn áhuga, sem m.a. byggist á því góða orðspori sem Ísland hefur sem lyfjaframleiðandi í gegnum farsæla sögu Actavis og Medis.“

Mikil tækifæri á markaðnum

Torfi segir mikil tækifæri á verktökumarkaðnum sem Coripharma byrji á en hann velti 5 milljörðum bandaríkjadala og sé spáð vexti upp í 7,5 milljarða árið 2021. Þegar við svo fullnýtum aðstöðuna og förum í eigin þróun verðum við með framleiðslugetu fyrir markað sem er enn umfangsmeiri, eða um 50 sinnum stærri en verktökuframleiðslan.

Hann segir að Teva muni áfram reka umfangsmikla starfsemi í Hafnarfirðinum þar sem um 280 manns starfi, m.a. á sölu- og markaðssviði Actavis á Íslandi, í lyfjaþróun og hjá Medis, sem selji lyf og lyfjahugvit félagsins til annarra lyfjafyrirtækja.