Rósa Guðbjartsdóttir
Rósa Guðbjartsdóttir
„Viðræðurnar gengu mjög vel og lofa góðu um samstarfið. Við sjálfstæðismenn erum spenntir fyrir þessum nýja meirihluta,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og verðandi bæjarstjóri.

„Viðræðurnar gengu mjög vel og lofa góðu um samstarfið. Við sjálfstæðismenn erum spenntir fyrir þessum nýja meirihluta,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og verðandi bæjarstjóri.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn og óháðir í Hafnarfirði hafa komist að samkomulagi um myndun nýs meirihluta í bænum. Rósa tekur við starfi bæjarstjóra en því hefur Haraldur L. Haraldsson gegnt. Ágúst Bjarni Garðarsson, Framsóknarflokki, verður formaður bæjarráðs og Kristinn Andersen, Sjálfstæðisflokki, verður forseti bæjarstjórnar. Verið er að leggja lokahönd á málefnasamning nýs meirihluta og verður hann kynntur eftir helgi. Þar er lögð áhersla á málefni fjölskyldunnar, eldri borgara og skilvirka þjónustu í þágu íbúa og fyrirtækja, eins og segir í tilkynningu.

Fyrsti fundur meirihlutaviðræðna í Reykjavík var haldinn í Marshall-húsinu í gærmorgun. Eins og fram hefur komið ákvað Viðreisn að ganga til viðræðna við gamla meirihlutann í borginni, Samfylkingu, Pírata og Vinstri græna. „Við fórum vítt og breitt yfir sviðið og kynntumst hvert öðru – og það var mikið hlegið. Líst mjög vel á hópinn og hlakka til framhaldsins,“ sagði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, á Facebook. Næsti fundur verður í FB í dag.

Engin tíðindi hafa borist af meirihlutaviðræðum í Kópavogi. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er vilji til þess í baklandi Sjálfstæðisflokksins að ganga frekar til samstarfs við Framsóknarflokkinn en BF-Viðreisn. Hvorki náðist í Ármann Kr. Ólafsson, oddvita sjálfstæðismanna, né Birki Jón Jónsson, oddvita Framsóknarflokksins, í gærkvöld.

Í gær var undirritaður samstarfssamningur Framsóknar- og félagshyggjufólks og Sjálfstæðisflokksins á Dalvík. Katrín Sigurjónsdóttir, oddviti Framsóknar, verður sveitarstjóri.

hdm@mbl.is