Hagfræðideild Landsbankans spáir því að hagvöxtur á yfirstandandi ári verði 4,1%, en næstu tvö ár hægi nokkuð á hagvexti og hann verði rétt undir langtímameðaltali, eða um 2,4% bæði árin.
Spá bankans fyrir árið í ár er nokkru hærri en bæði Íslandsbanki og Seðlabanki Íslands spáðu á dögunum. Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu hljóðaði þjóðhagsspá Íslandsbanka upp á 2,6% hagvöxt á þessu ári, en 2,4% á næsta ári. Til samanburðar þá spáði Seðlabankinn 3,3% hagvexti í ár og 3% á næsta ári.
Í Þjóðhag, þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans, segir að efnahagsástandið hér á landi sé á flesta mælikvarða mjög gott. Hagvöxtur hafi verið kröftugur og verðbólga lítil síðustu ár. „Á næstu árum er útlit fyrir að það hægi allnokkuð á hagvexti samhliða aðlögunartímabili í ferðaþjónustugeiranum sem vaxið hefur á ofurhraða á síðustu sjö árum,“ segir í hagspánni.
Þá segir í spánni að verðbólguhorfur séu almennt góðar enda sé „líklegt að það dragi verulega úr spennu í ljósi þess að umsvif í hagkerfinu verða meira í samræmi við langtímahagvaxtargetu þjóðarbúsins en verið hefur á síðustu árum,“ eins og það er orðað í spánni.
Þá telur hagfræðideildin ekki þörf fyrir neina sérstaka aðlögun eða lendingu hagkerfisins. tobj@mbl.is