Bæjarhátíð Aukinn kraftur hefur verið lagður í undirbúning sjómannadagsins á Akureyri að undanförnu til að koma þessum hátíðisdegi aftur á þann stall sem hann verðskuldar. Bæjarbúar fylgjast með róðrarliðum etja kappi.
Bæjarhátíð Aukinn kraftur hefur verið lagður í undirbúning sjómannadagsins á Akureyri að undanförnu til að koma þessum hátíðisdegi aftur á þann stall sem hann verðskuldar. Bæjarbúar fylgjast með róðrarliðum etja kappi. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Hömrum verða leiktæki og sprell og farin hópsigling á Pollinum, vonandi í glampandi sól.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ragnar Hólm Ragnarsson, kynningarfulltrúi hjá Akureyrarbæ, segir að það hafi gerst á Akureyri eins og víða annars staðar á landinu að það hafi smám saman dregið úr hátíðahöldum á sjómannadeginum. „Það stafaði m.a. af því að það var ekki alveg ljóst hver ætti að annast dagskrána, og ekki hver sem er fær um að taka verkefnið að sér enda fylgir því umtalsverður kostnaður að halda svona hátíð. Nú hafa Akureyrarstofa og Sjómannafélag Eyjafjarðar tekið höndum saman um að snúa þessu við og er stefnt að því að hátíðin fái aftur sinn fyrri sess. Við erum ánægð með þá stórfínu dagskrá sem tókst að setja saman í ár og hyggjumst halda enn glæsilegri sjómannadag á næsta ári.“

Siglt á Húna II

Það verður mikið um dýrðir á Akureyri um helgina og segir Ragnar að bærinn muni sýna sínar bestu hliðar, en bæjarbúar eru hvattir til að flagga í tilefni dagsins. „Sjómannadagurinn hefst með hefðbundnum hætti með sjómannadagsmessum í bæði Glerárkirkju og Akureyrarkirkju og að messum loknum verður lagður blómsveigur að minnisvarða um týnda og drukknaða sjómenn.“

Formleg skemmtidagskrá hefst kl. 13 þegar boðið verður upp á skemmtisiglingu á Húna II, hvalaskoðunarbátum og fleiri fögrum fleyjum. Bátarnir sigla frá Torfunesbryggju að Sandgerðisbót þar sem trillur af öllum stærðum og gerðum slást í för með þeim í hópsiglingu inn á Pollinn. „Siglingaklúbburinn Nökkvi verður líka með og verður farin hópsigling hér fyrir framan bæinn. Veðurspáin lítur vel út og ætti að vera mikill áhugi á að komast í siglingu um fjörðinn í blíðunni.“

Frá kl. 14 til 17 færast hátíðahöldin upp í Hamra, útivistar- og tjaldsvæði skáta. „Skátarnir leggja gjörva hönd á plóg og verður skemmtidagskrá á svæðinu þar sem m.a. verður efnt til fjöldasöngs og Einar Mikael töframaður sýnir sjónhverfingar,“ segir Ragnar. „Hoppukastalar verða fyrir börnin og bátar á tjörnunum, rafmagnsbílar á brautum og keppt í koddaslag. Skátar selja grillaðar pylsur í fjáröflunarskyni og ætti andrúmsloftið að minna á karníval.“

Hluti af sögu bæjarins

Skemmtidagskránni lýkur um kl. 17 en Ragnar segir margt annað um að vera í bænum og þurfi enginn að láta sér leiðast. „Það má t.d. heimsækja menningarstofnanir bæjarins og við hæfi að líta við í Minjasafninu og Iðnaðarsafninu þar sem áhugaverðar sýningar eru í gangi og veita m.a. innsýn í atvinnu- og byggðasögu svæðisins.“

Reiknar Ragnar með góðri þátttöku enda sjávarútvegurinn einn af burðarstólpum atvinnulífsins á Akureyri. „Það var ekki síst vegna sjávarútvegsins að byggðin óx og blómstraði, og þó svo að atvinnulífið sé blessunarlega orðið mun fjölbreyttara í dag leika útgerð og fiskvinnsla enn veigamikið hlutverk. Akureyri er líka orðin ein af þungamiðjum landsins í rannsóknum og kennslu á sjávarútvegssviðinu og fjöldi nemenda sem stundar sjávarútvegsnám við Háskólann á Akureyri.“