Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Northern lights“ er yfirskrift tónleika sem Dómkórinn í Reykjavík heldur í Hallgrímskirkju á sunnudag kl. 17. Tónleikarnir eru upphitun fyrir tónleikaferð kórsins til Frakklands, en viku síðar heldur kórinn tónleika í Saint-Étienne-du-Mont-kirkjunni í 5. hverfi Parísarborgar. Á efnisskrá tónleikanna er Sálumessa ópus 9 eftir franska tónskáldið Maurice Duruflé sem einmitt var organisti við sömu kirkju um langa hríð. Efnisskrá tónleikanna tekur titil sinn frá samnefndu verki eftir norska tónskáldið Ola Gjeilo sem er á dagskrá kórsins.
„Yfirskrift tónleikanna í París verður hins vegar „Entends, artisan des cieux“ sem er frönsk þýðing á „Heyr himna smiður“ en samnefndur sálmur og tveir aðrir eftir Þorkel Sigurbjörnsson eru á efnisskránni. Auk þess syngur kórinn verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, sem syngur reyndar með kórnum, Önnu S. Þorvaldsdóttur, Eriks Ešenvalds, Eric Whitacre og Francis Poulenc, auk tveggja annarra verka eftir Duruflé,“ segir Kári Þormar, stjórnandi Dómkórsins. „Það má segja að við ráðumst á garðinn þar sem hann er hæstur að ætla okkur að syngja á frönsku fyrir heimamenn, en við látum bara vaða.“
Hafa eitthvað að stefna að
Á tónleikunum í Hallgrímskirkju leikur Steingrímur Þórhallsson á orgelið í Sálumessunni. „Þetta er einn erfiðasti orgelundirleikskafli sem til er og því ekki fyrir hvern sem er að spila. Steingrímur verður því miður ekki með okkur í París þar sem hann er sjálfur að fara með eigin kór í tónleikaferð. Í staðinn leikur Vincent Warnier með okkur, en hann er annar tveggja organista við Saint-Étienne-du-Mont-kirkjuna í París og jafnframt virtur organisti á alþjóðavettvangi. Núverandi organistar kirkjunnar tóku við af Marie Duruflé, ekkju tónskáldsins, sem hafði verið organisti við hlið eiginmannsins og áfram eftir að hann dó,“ segir Kári og tekur fram að París sé mekka organista, enda mikið af flottum hljóðfærum í kirkjum borgarinnar.Einsöngvarar í Sálumessunni í Hallgrímskirkju og í París verða Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran og Jón Svavar Jósefsson barítón. „Á tónleikunum í Hallgrímskirkju syngur Guðbjörg Hilmarsdóttir sópran einsöng í verkinu „Only in sleep“ eftir Lettann Eriks Ešenvalds,“ segir Kári og tekur fram að bæði Guðbjörg og Jón Svavar syngi með kórnum. „Enda eru margir góðir og menntaðir söngvarar sem syngja með kórnum, þótt hann sé að stórum hluta skipaður leikmönnum,“ segir Kári, en kórfélagar telja á fimmta tuginn.
„Við reynum að fara í tónleikaferð á tveggja til þriggja ára fresti, enda alltaf gott að hafa eitthvað að stefna að,“ segir Kári og tekur fram að strax á næsta ári muni Dómkórinn taka þátt í kórakeppni í Salzburg.