Flök Á löngum og farsælum ferli hefur afskaplega fátt tengt fiski verið Sigurjóni óviðkomandi.
Flök Á löngum og farsælum ferli hefur afskaplega fátt tengt fiski verið Sigurjóni óviðkomandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurjón Arason á 40 ára starfsafmæli hjá Matís, en þar hefur hann unnið að fjölda verkefna tengdra veiðum og vinnslu á fiski.

Sigurjón Arason á 40 ára starfsafmæli hjá Matís, en þar hefur hann unnið að fjölda verkefna tengdra veiðum og vinnslu á fiski. Hann hefur áhyggjur af minnkandi framlögum til rannsókna á þessu sviði og segir tækifæri til að búa til enn meiri verðmæti úr íslenska fiskinum og nýta t.d. í snyrtivörur eða lyf.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Árið 1978 hóf ungur og metnaðarfullur maður störf hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf), sem síðar varð hluti af Matís. Sigurjón Arason vinnur enn á sama stað og brennur enn af eldmóði og áhuga á 40 ára starfsafmælinu. Hann segir varla hægt að þreytast á rannsóknum tengdum sjávarútvegi enda greinin kröftug og einhuga um að þróa nýjar aðferðir og nýjar vörur sem stuðla að bættri verðmætasköpun og um leið betri afkomu.

Auk þess að vera yfirverkfræðingur hjá Matís er Sigurjón prófessor í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands og þar að auki kennari við alþjóðlegan Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Jarðhitaháskóla Sameinuðu þjóðanna. Undanfarinn áratug hefur hann útskrifað tíu doktorsnema, bæði innlenda og erlenda, og í dag kemur hann að verkefnum fimm doktorsnemenda.

Nánast frá því að hann man eftir sér hefur Sigurjón unnið störf með einhverja tengingu við sjávarútveginn. „Ég var tíu ára þegar ég hóf störf hjá frystihúsi við að mata roðflettivél og vann líka á síldarplani. Svo veiddi ég humar með pabba í fimm ár með menntaskólanáminu og meðfram háskólanámi starfaði ég í hreinlætis- og búnaðardeild hjá Fiskmati ríkisins. Allan þennan tíma ætlaði ég mér samt að verða læknir, en áttaði mig síðan á því eftir stúdentspróf að ég myndi una mér best á kafi í fiskinum.“

Flétta saman jarðhita og fiskvinnslu

Þau fjörutíu ár sem Sigurjón hefur verið hjá Rf og Matís hafa verið tími mikilla framfara í veiðum og vinnslu í íslenskum sjávarútvegi. Hann segir bætta hráefnisnýtingu og aukin gæði hafa verið helsta markmiðið öll þessi ár, en eitt af fyrstu tímamótaverkefnunum sem Sigurjón vann snerist um að nota jarðhita til að þurrka afurðir sem féllu til við fiskvinnsluna: „Fyrst var settur upp grindarklefi með þurrkunarkerfi í Hafnarfirði og síðar færibandaþurrkari í Hveragerði, til að þurrka hausa og hryggi, og búnaðurinn síðan fluttur í Haustak á Reykjanesi. Fyrir herta hausa má fá á bilinu 5-10 dali á kílóið á meðan kílóverðið á mjöli er 1-2 dalir og því tókst með þessu að búa til fimmfalt verðmætari afurð.“

Mælingar á nýtingu afla sýna hversu miklar framfarir hafa orðið. „Áður fyrr nýtti sjávarútvegurinn í kringum 40-45% af þyngd fisksins í flök og afgangurinn fór ýmist í hafið sem afskurður eða var nýttur sem fiskmjölshráefni í landi. Í dag nýtum við um það bil 80% af fiskinum í að gera verðmætar vörur og nokkur vinnsluskip eru komin með fiskmjölsverksmiðjur um borð svo að ekkert fer til spillis.“

Æ verðmætari vara

Með betri nýtingu og auknum gæðum hefur líka tekist að gera aflann margfalt verðmætari. „Ein stærsta byltingin kom með bættri kælitækni sem þýddi að hægt var að kæla fiskinn mun betur og af meiri nákvæmni úti á sjó og fyrir vikið koma með langtum betra hráefni að landi. Betri kæling hefur þýtt að tegundir eins og síld og makríll, sem áður fóru að einhverju leyti í fiskmjöl, má núna nýta sem ofurferskt hráefni í vörur til manneldis. Samhliða hefur skráning á uppruna aflans batnað verulega og geta útgerðir tengt gallatíðni við það hvar fiskurinn veiðist. Með því að beina skipunum á djúpslóð, þar sem minna ber á hringormi, hefur tekist að veiða mun betri fisk sem bæði tekur miklu skemmri tíma að snyrta og nýtist betur til að gera falleg flök og bita.“

Allar framfarir síðustu áratuga hafa orðið til þess að hver fiskur er orðinn allt að fjórum sinnum verðmætari en áður. „Fiskveiðar hafa dregist mikið saman síðan kvótakerfið var sett á og t.d. þorskkvótinn verið skorinn niður um 50%. Þrátt fyrir það er heildarvirði aflans mun meira en það var,“ segir Sigurjón. „Greinin sá það strax og kvótaþak var sett á fiskveiðar að það þyrfti að spýta í lófana og leita allra leiða til að skapa sem mest verðmæti úr aflanum frekar en að veiða sem mest.“

Getum gert enn betur

Sigurjón segir það eiga að vera mögulegt að auka virði sjávarafurða um annað eins á komandi áratugum, að því gefnu að nægilegum fjármunum sé varið í rannsóknir og þróun. „Áhugaverðustu tækifærin eru fólgin í því að nýta betur lífvirku efnin í fiskinum til að þróa vörur sem hjálpa okkur að lifa betur og jafnvel lengur. Doktorsnemendur sem ég aðstoða um þessar mundir eru allir að vinna að rannsóknum af þessum toga og stefna á sóknarfæri í lyfjaiðnaði eða snyrtivörugeiranum,“ segr Sigurjón. „Við þurfum líka að halda áfram að framleiða ný og betri matvæli og búa til sjávarafurðir sem auðveldara er fyrir neytendur að matreiða og snæða og þannig hægt að selja á hærra verði.“

Að mati Sigurjóns hefur íslenskur sjávarútvegur alla burði til að vera leiðandi á þessu sviði, því þrátt fyrir mannfæðina er fræða- og nýsköpunarsamfélagið öflugt og vinnur sem ein heild. Hann segir að í mörgum samkeppnislöndum okkar sé rannsóknum og vöruþróun vel sinnt en þekkingin og mannauðurinn sé dreifðari. „Það er eitt helsta einkenni Íslands hve stutt er á milli manna og stutt á milli háskólasamfélagsins og iðnaðarins. Vegalengdirnar eru ekki meiri en svo að ég get t.d. unnið að rannsóknum og fræðastörfum á virkum dögum og svo haldið út á land um helgi til að kenna sjómönnum og fiskvinnslufólki hvernig á að kæla fiskinn betur eða ná meiri árangri í rækjuveiðum og verið síðan kominn aftur á rannsóknarstofuna næsta mánudag.“

Þörf á öflugri sjóðum

Það sem helst veldur Sigurjóni áhyggjum er að framlög hins opinbera til sjávarútvegstengdra rannsókna hafa farið minnkandi á meðan sjóðir í löndum á borð við Noreg fara stækkandi. „Það var bylting þegar AVS-rannsóknasjóðurinn í sjávarútvegi var settur á laggirnar fyrir tólf árum. Sjóðurinn fór vel af stað og þegar mest var hafði hann úr rúmlega 400 milljónum króna að spila árlega. Núna eru fjárframlög til AVS komin niður í um 200 milljónir. Á sama tíma hefur t.d. FHF-sjóðurinn (n. Fiskeri- og havbruksnæringens forskningsfond) stækkað og úthlutar núna um það bil 300 milljónum norskra króna, eða nærri 20 sinnum meira fjármagni en íslenski sjóðurinn.“

Sigurjón segir að reynslan kenni okkur að því fjármagni sem varið er til rannsókna í sjávarútvegi sé vel varið og hafi aukin þekking á veiðum og vinnslu verið lyftistöng fyrir allar tegundir fiskveiða. „Bara þær framfarir sem orðið hafa í kælingu, sem lengt hafa geymsluþol ferska fisksins úr sex dögum í allt að tvær vikur, hafa verið ómetanlegar fyrir greinina. Þess ber að geta að tækjaframleiðendur eins og Marel, Valka, Skaginn-3X, Sæplast-Tempra o.fl. hafa tekið virkan þátt í þróuninni og hefur það stutt þessa öru þróun síðustu árin, bæði hjá framleiðendum sjávarafurða, í þróun veiðiskipa og vinnslubúnaðar. Þessi góða samvinna innan greinarinnar hefur gagnast öllum og stuðlað að þeirri verðmætasköpun sem blasir við.“