[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2018 Guðjón Þór Ólafsson gudjon@mbl.is Íslenska landsliðið og þau gildi sem það stendur fyrir endurspeglast að mörgu leyti í Jóni Daða Böðvarssyni. Dugnaður, ósérhlífni, fórnfýsi og hógværð eru allt orð sem lýsa Jóni Daða vel.

HM 2018

Guðjón Þór Ólafsson

gudjon@mbl.is

Íslenska landsliðið og þau gildi sem það stendur fyrir endurspeglast að mörgu leyti í Jóni Daða Böðvarssyni. Dugnaður, ósérhlífni, fórnfýsi og hógværð eru allt orð sem lýsa Jóni Daða vel. Jón segir að það hafi verið gott að komast til Íslands og undirbúningurinn fyrir HM í Rússlandi hafi gengið mjög vel það sem af er:

„Ég var með þeim fyrstu sem komu til landsins. Við vorum þá bara fimm og maður þurfti ekki að tékka sig strax inn á hótel þannig að maður gat notið þess að vera með fjölskyldunni og hafa það kósí ásamt því að æfa. Núna eru allir komnir og það er komin smáspenna í hópinn.“

Jón Daði, sem átti gott tímabil með Reading á Englandi, segist koma fullur sjálfstrausts til leiks í Rússlandi þrátt fyrir að gengi liðsins hafi verið töluvert undir væntingum:

Hlakkar alltaf til að hitta strákana

„Ég er mjög sáttur með tímabilið hjá mér persónulega, þó að það hafi gengið svolítið brösuglega hjá klúbbnum. Ég kem alltaf hingað með sjálfstraust, sama hvernig gengur með félagsliðinu. Aðallega af því að þetta er allt öðruvísi hérna hjá landsliðinu. Það er alltaf öðruvísi stemning og maður hlakkar alltaf til að hitta strákana og undirbúa sig fyrir hvaða leik sem er.“

Annað kvöld, laugardagskvöldið 2. júní, mætir Ísland Noregi í vináttulandsleik sem er hluti af undirbúningi landsliðsins fyrir HM. Þetta verður í fyrsta skipti sem strákarnir mæta sínum gamla læriföður Lars Lagerbäck. Jón Daði segir að það sé mikil tilhlökkun í hópnum fyrir leikinn:

„Ég held að við hlökkum allir mikið til. Hann gerði náttúrlega rosalega mikið fyrir þetta landslið sem við höfum eins og við öllum vitum. Þannig að það verður gaman að hitta kallinn aftur.“

Merkilega rólegir yfir því að mæta Messi

Hinn 16. júní klukkan 13.00 að íslenskum tíma spilar Ísland sinn fyrsta leik á HM gegn Argentínu í Moskvu. Með Argentínu spilar lágvaxinn og veiklulegur knattspyrnumaður sem hefur gert það að atvinnu sinni að gera gys að heimsklassavarnarmönnum í bráðum 15 ár. Þetta er auðvitað snillingurinn Lionel Messi. Jón Daði sagði að það væri „frábær tilhugsun“ að mæta Messi. Hann sagði þó að hópurinn væri „merkilega rólegur“ yfir því.

„Þegar þú ert svona mikið inni í þessu; það grillaða við þetta er að þetta verður svo eðlilegt einhvern veginn allt saman. Ég held að það verði alltaf spenna og stress í öllum en þegar flautið skellur á verða allir klárir og spenntir og bara í núinu.“

Jón Daði segir að reynslan frá EM í Frakklandi muni án efa nýtast liðinu í Rússlandi: „Ég held að þetta Evrópumót hafi farið gríðarlega mikið í reynslubankann, upp á það að það er stutt á milli leikja og ákveðin orka andlega og líkamlega sem fer í þetta. Þannig að menn eru orðnir miklu reyndari hvað það varðar og við vitum svona við hverju á að búast. Það er bara jákvætt.“