Bjargvætturinn Hér sést varðskipið Þór dæla neysluvatni á vatnstanka í Flatey á Breiðafirði
Bjargvætturinn Hér sést varðskipið Þór dæla neysluvatni á vatnstanka í Flatey á Breiðafirði — Ljósmynd/Landhelgisgæslan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landhelgisgæslan sinnir fjölbreyttum störfum bæði á sjó og landi Um borð í varðskipunum eru engir tveir dagar eins og þarf starfsfólk gæslunnar að vera tilbúið að takast á við nánast hvað sem er

Teitur Gissurarson

teitur@mbl.is

Í fjölda ára urðu Íslendingar fyrir barðinu á erlendum veiðimönnum sem veiddu uppi við strendur landsins. Þeirra verstir voru Bretar sem nýttu sér máttleysi Íslendinga í landhelgisgæslu og veiddu fisk sinn svo gott sem af diskum Íslendinga. Úr varð að árið 1906 sendu Danir Íslendingum sérstakt eftirlitsskip, Islands Falk, til að sinna gæslustörfum hér við land. Tuttugu árum síðar kom svo Óðinn til landsins, fyrsta varðskipið sem smíðað var fyrir Íslendinga. Nú, tæpum hundrað árum síðar, eru starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands tæplega tvö hundruð talsins. Stofnunin sinnir yfir 250 þyrluútköllum á ári og hefur til umráða fjölda skipa, þrjár þyrlur og flugvél. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, ræddi við blaðamann um starfsemina og framtíðarsýn stofnunarinnar.

Sum störfin óhefðbundin

„Þó svo að þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar sé ef til vill mest áberandi hluti þess sem við gerum, þá er starfsemin ákaflega fjölbreytt og umfangsmikil,“ segir Ásgeir spurður hvort Landhelgisgæslan geri nokkuð annað en að fljúga þyrlum yfir Faxaflóann. „Þar má til dæmis nefna sprengjueyðingarsveitina sem hefur það hlutverk að gera óvirkar og eyða sprengjum sem finnast í hafinu við landið. Vegna sérþekkingar sinnar hefur sprengjusveitin jafnframt sinnt sprengjueyðingu og tengdum verkefnum á landi, og leit að sprengjum í skipum og flugvélum. Sveitin sér sömuleiðis um hreinsun hernaðarsvæða og stendur fyrir þjálfun og kennslu í sprengjuleit og -eyðingu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ásgeir.

Hann nefnir einnig að Landhelgisgæslan sinni ýmsum störfum hér á landi eins og framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna. „Helstu verkefnin eru rekstur íslenska loftvarnakerfisins, þ.m.t. fjarskiptastöðva og ratsjárstöðva Atlantshafsbandalagsins hérlendis. Þá tökum við þátt í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins auk undirbúnings og umsjónar varnaræfinga sem haldnar eru hérlendis. Sjómælingasvið er að sama skapi mjög mikilvægt en það annast sjómælingar og sjókortagerð.“

Fylgjast vel með skipum og afla

Það er ljóst að Landhelgisgæslan sinnir ýmsum verkefnum sem ekki eru öllum augljós. Þar á meðal eru störf varðskipafólks, en flestir þekkja varðskipið Þór, sem Íslendingar eignuðust árið 2011. „Varðskipin hafa frá stofnun Landhelgisgæslunnar árið 1926 gegnt veigamiklu hlutverki. Þau sinna almennri löggæslu á hafinu sem felst fyrst og fremst í því að hafa eftirlit með farartækjum á sjó. Þá er einkum verið að fylgjast með því hvort skipin eru haffær, hvort þau hafa nauðsynlegan öryggisbúnað og hvort stjórnendur þeirra hafa tilskilin réttindi,“ segir Ásgeir.

„Skipverjar á varðskipum fara einnig reglulega um borð í skip og mæla stærð fisks. Eftirlit varðskipsmanna felst í því að mæla stærð fisks um borð í bátum og skipum og reynist meðaltal fisks vera undir leyfilegum viðmiðunarmörkum gerir skipherra vakthafandi fiskifræðingi hjá Hafrannsóknastofnun viðvart og gerir tillögu um lokun svæðis,“ segir Ásgeir og bætir við að markmið Landhelgisgæslunnar sé að fara um borð í 20 til 25 skip í hverjum mánuði. Stærstan hluta ársins er eitt skip frá Landhelgisgæslunni úti á sjó. „Landhelgisgæslan leitast við að hafa varðskipin sem mest á sjó. Í fyrra voru úthaldsdagar varðskipanna um 290 og var skipt jafnt á milli Þórs og Týs,“ segir Ásgeir og bætir við að búast megi við að úthaldsdögunum fjölgi í um 350 á þessu ári.

Spurður hvernig hefðbundinn dagur í lífi varðskipastarfsmanns sé segir Ásgeir að enginn dagur sé eins og annar. „Verkefnin eru mjög fjölbreytt og samanstanda af löggæslu og fiskveiðieftirliti, æfingum, leit og björgun, viðhaldi og köfun, svo eitthvað sé nefnt. Til að áhafnir varðskipanna séu ávallt tilbúnar og til taks er mikið um æfingar um borð. Það geta til dæmis verið þrekæfingar, reykköfun og köfun og æfingar með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Það eina sem má ganga að vísu um borð í varðskipunum er skatan og saltfiskurinn í hádeginu á laugardögum,“ segir Ásgeir.

Risastórt svæði

,,Landhelgisgæsla Íslands annast löggæslu og eftirlit á hafinu umhverfis landið og fer með yfirstjórn vegna leitar og björgunar á sjó. Landhelgisgæslan ber ábyrgð á eftirliti, lög- og öryggisgæslu á svæði sem nær yfir 752.000 ferkílómetra og leit og björgun á svæði sem þekur um 1,9 milljónir ferkílómetra sem er rúmlega tvöfalt stærra en efnahagslögsaga Íslands,“ segir Ásgeir aðspurður á hversu stóru svæði Landhelgisgæslan starfi. „Leitar- og björgunargeta á hafinu við Ísland byggist á þremur meginstoðum; það eru stjórnstöð LHG sem segja má að sé hjartað í starfseminni, loftförum og varðskipum, auk þess sem treyst er á hinn almenna sjófaranda. Varðskip, flugvél og þyrlur eru órjúfanlegir hlekkir í þeirri keðju er mótar björgunargetu Landhelgisgæslunnar,“ segir hann. Spurður um hlutverk Landhelgisgæslunnar í leit og björgun á landi segir Ásgeir að þrátt fyrir að hún sé á ábyrgð lögreglu geti Landhelgisgæslan þó aðstoðað bæði lögreglu og björgunarsveitir. „Gagnsemi þyrlna Landhelgisgæslunnar í slíkum málum hefur margsannað sig, sérstaklega í afskekktari byggðum. “

Spennandi tímar fram undan

Nýlega bárust fréttir af því að Landhelgisgæslan hefði ekki getað sinnt útkalli vegna mikilla anna hjá þyrlusveitum stofnunarinnar. Spurður út í atvikið og hvort telja megi að Landhelgisgæslan sé undirmönnuð segir Ásgeir: „Þegar við skoðum tölfræðina, þá leikur enginn vafi á því að verkefnum Landhelgisgæslunnar er að fjölga. Í fyrra var sett met í fjölda þyrluútkalla en þá fór þyrlusveitin í alls 257 útköll. Núna sjáum við 18% aukningu í þyrluútköllum frá sama tíma í fyrra. Þegar þrjár vikur voru liðnar af maí hafði þyrlusveitin farið í um 100 útköll á árinu. Þörfin fyrir eina þyrluáhöfn til viðbótar er því mikil, eins og við höfum bent á. Við höfum tvær þyrluáhafnir til taks rúmlega helming ársins. Þá má lítið út af bregða en oftast tekst að manna tvær áhafnir þegar mikið liggur við með því að kalla áhafnir úr vaktafríum. Það er þó ekki sjálfgefið,“ segir Ásgeir. „Við höfum sömuleiðis bent á að til að tryggja lágmarksöryggi á hafinu þyrfti að hafa tvær þyrlur með tveimur áhöfnum til taks allt að 95% ársins, tvö varðskip á sjó hverju sinni og eftirlits- og björgunarflugvél til taks 95% ársins. Landhelgisgæslan hefur fulla ástæðu til að horfa björtum augum fram á veginn. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er búið að taka frá fjármagn til að bæta við áhöfn auk þess sem þar er gert ráð fyrir kaupum á þremur nýjum björgunarþyrlum. Undirbúningur fyrir útboð stendur nú yfir og ef allt gengur að óskum ætti fyrsta þyrlan að vera komin árið 2021. Það eru því spennandi tímar fram undan hjá Landhelgisgæslunni. “