„Hagstofa Íslands hefur í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 16. maí 2014 staðið að sérstakri gagnasöfnun um kjörsókn eftir aldri kjósenda í þeim almennu kosningum sem haldnar hafa verið síðan þá.

„Hagstofa Íslands hefur í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 16. maí 2014 staðið að sérstakri gagnasöfnun um kjörsókn eftir aldri kjósenda í þeim almennu kosningum sem haldnar hafa verið síðan þá. Í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum var sambærileg beiðni um skýrslugjöf send yfirkjörstjórnum 74 sveitarfélaga. Um skýrslugjöf yfirkjörstjórna í sveitarstjórnarkosningum segir í 88. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998: „Yfirkjörstjórn skal senda Hagstofu Íslands skýrslu um kosninguna ritaða á eyðublað er Hagstofan lætur í té.““ Þetta kom fram í tilkynningu frá Hagstofunni vegna fréttar í Morgunblaðinu í gær.

Hagstofan segir að gagnasöfnunin taki mið af öruggri meðferð persónuupplýsinga um leið og gætt sé að svarbyrði við framkvæmd. Þetta sé gert í samræmi við lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð og lög um persónuvernd.

„Að beiðni kjörstjórna er beðið um að skrásettar séu raðtölur þeirra sem kusu ekki til að minnka álag við innslátt. Auk heldur er í samræmi við fyrri reynslu tilgreint á eyðublaðinu hvort raðtalan eigi við um konu eða karl til að minnka villuhættu við innslátt. Eftir að yfirkjörstjórnir hafa skilað gögnum á öruggt vefsvæði fá gögnin nýtt auðkenni sem er ótengt kennitölu, nafni eða raðnúmeri kjörskrár en öðrum upplýsingum er eytt. Gögnin eru því hvorki rekjanleg til nafns né kennitölu,“ segir í tilkynningunni.

Hagstofan kveðst hafa skýra heimild til að safna og nota persónugreinanleg gögn við hagskýrslugerð og leggja áherslu á örugga meðferð trúnaðargagna. Fyrir alþingiskosningar haustið 2016 var beðið um álit Persónuverndar á því hvort vinnsla Hagstofunnar væri í samræmi við lög og gerði Persónuvernd engar athugasemdir við vinnsluferlið.

Enn fremur segir í tilkynningunni að um sé að ræða brýnar upplýsingar um samfélagsgerð og lýðræðislega virkni borgaranna. Í ljósi þess að erfitt geti verið að fá fulla þátttöku frá ungu fólki og fólki með erlendan uppruna í úrtaksrannsóknum sé sú leið illfær til að fá áreiðanlegar upplýsingar um kosningaþátttöku þeirra. Því hafi verið kallað eftir sérstökum skýrslum frá yfirkjörstjórnum um kosningaþátttökuna.