Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda vegna tekna ársins í fyrra og birti í gær lista yfir 40 hæstu skattgreiðendur landsins.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda vegna tekna ársins í fyrra og birti í gær lista yfir 40 hæstu skattgreiðendur landsins. Efst á listanum er Sigríður Vilhjálmsdóttir sem greiðir tæpar 426 milljónir króna í skatta í ár. Sigríður er stór hluthafi í Fiskveiðihlutafélaginu Venus hf. sem er stærsti hluthafi Hvals hf. Á listanum eru einnig aðrir stórir hluthafar í því félagi, systkinin Kristján og Birna Loftsbörn. Þau skipa 6. og 7. sæti listans.

Fleiri úr sjávarútvegi er að finna á listanum. Í 2.-4. sæti eru menn sem tengjast útgerðinni Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfirði, sem var nýverið seld. Útgerðarmennirnir Jens Valgeir Óskarsson í Grindavík og Friðþór Harðarson á Hornafirði eru í 14. og 15. sæti. Þá eru Samherjafrændur, Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson, í sætum 19 og 25. Eins er á listanum Bergvin Oddsson ásamt börnum hans, Magneu, Haraldi og Lúðvík, fyrrverandi alþingismanni. Þau seldu útgerðarfyrirtækið Glófaxa til Vinnslustöðvarinnar á síðasta ári.

Forstjórarnir Róbert Wessman hjá Alvogen, Liv Bergþórsdóttir hjá Nova og Grímur Sæmundsen hjá Bláa lóninu eiga sinn sess á listanum ásamt Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra framleiðslu Alcoa á heimsvísu. Úr fjármálageiranum er meðal annars að finna þrjá stjórnarmenn Glitnis HoldCo, þá Michael Wheeler, Tom Grøndahl og Steen Parsholt.

Metfjöldi framteljenda

Aldrei hafa fleiri talið fram á Íslandi. Á skattskrá nú voru 297.674 framteljendur og fjölgaði þeim um 10.946 frá fyrra ári, eða um 3,8%. Framteljendum hefur ekki fjölgað jafnmikið síðan árið 2007. Að þessu sinni voru skattar 17.973 einstaklinga áætlaðir, en það eru ríflega sex prósent af heildarfjölda. Í dag verða inneignir lagðar inn á bankareikninga þeirra sem eiga inni hjá ríkissjóði eftir álagningu.